Fyrirliðarnir Logi Gunnarsson og Ólafur Helgi Jónsson hafa framlengt samningum sínum við karlalið Njarðvíkur. Kallarnir í brúnni kvittuðu undir nýja samninga með Kristínu Örlygsdóttur formanni Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur í dag.
Logi Gunnarsson fyrirliði Njarðvíkurliðsins hefur nú sitt tuttugasta og fjórða tímabil í meistaraflokki á ferlinum en hann verður 39 ára gamall á þessu ári. „Maður er búinn að vera lengi í þessu og ég verð að segja að það var ansi sérstakt að þurfa að hætta leik þegar úrslitakeppnin var handan við hornið. Nú er ekkert annað að gera en að horfa til næstu leiktíðar og koma vel undirbúinn til leiks,“ sagði fyrirliðinn Logi Gunnarsson.
Ólafur Helgi Jónsson er varafyriliði Njarðvíkurliðsins en hann hefur nú sitt þrettánda leikár í úrvalsdeild. Fyrr í vikunni samdi Jón Arnór Sverrisson einnig við félagið og þar áður framherjinn Mario Matasovic svo Njarðvíkurlið næstu leiktíðar er óðar að taka á sig mynd.