Súrt var það tapið gegn Haukum í Njarðtaksgryfjunni í kvöld. Aðeins tvö stig skyldu liðin að 85-87. Fyrirliðinn Logi Gunnarsson var besti maður vallarins og fékk erfitt lokaskot til að stela sigrinum en það hafðist ekki að þessu sinni. Hér að neðan fer umfjöllun um leikinn frá Karfan.is
Haukar mörðu sigur í Njarðtaksgryfjunni í kvöld 85-87 þar sem funheitur Logi Gunnarsson fékk erfitt lokaskot til að stela sigrinum en það vildi ekki niður og Haukar héldu heim með tvö stig.
Í kvöld voru bæði lið ekki fullmönnuð því hjá Haukum þá meiddist Earvin Lee Morris á æfingu Hauka skömmu fyrir leik. Morris var í búning en kom ekki við sögu. Hjá Njarðvík er Antonio Hester enn að ljúka sóttkví og var því ekki með og Maciej Baginski var fjarverandi sökum meiðsla.
Haukar kynntu nýjan mann til leiks í Brian Fitzpatrick en þar fer heljarmenni sem setti 16 stig í kvöld og tók 10 fráköst. Njarðvíkingar endurheimtu Jón Arnór Sverrisson af venslasamning frá Breiðablik fyrir leikinn og þá eins og mörgum er væntanlega kunnugt lék Ingvi Þór Guðmundsson sinn fyrsta leik fyrir Hauka.
Snöggsoðið
Haukar voru oftar en ekki feti framar í kvöld, Njarðvíkingar börðu sér oft leið upp að hlið gestanna og áttu séns á því að stela sigrinum en Haukar héldu út. Ingvi, Hansel og Brian Fitzpatrick leiddu Hauka en Mario, Rodney og Logi leiddu lið Njarðvíkinga og það er alveg óhætt að slá því föstu að Logi Gunnarsson hafi verið besti maður vallarins í kvöld með 30 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar en hann var 7 af 13 í þristum í kvöld.
Gangur leiksins
Haukar leiddu 14-19 eftir fyrsta leikhluta og svo 39-46 í hálfleik. Ingvi Þór var með 13 stig fyrir Hauka í hálfleik en Mario 14 í liði Njarðvíkur. Í þriðja leikhluta komu Haukar sér upp fínni 10 stiga forystu en Njarðvíkingar komu sterkir inn í fjórða með Loga í broddi fylkingar. Njarðvík minnkaði muninn í 73-74 en gleymdu sér svo á varnarendanum þar sem Austin Bracey snögghitnaði og jók muninn í einn síns liðs í 75-82. Enn létu Ljónin ekki árar í bát og Ólafur Helgi jafnar metin 84-84 þegar mínúta lifði leiks. Haukar náðu forystunni á ný en þegar 4,9 sek. voru eftir fékk Rodney Glasgow tvö víti til að jafna leikinn fyrir Njarðvík en brenndi af öðru vítinu. Njarðvík braut svo á Fitzpatrik sem fékk víti fyrir Hauka og kom þeim í 85-87 og Njarðvík án leikhlés. Boltinn barst til Loga í erfiðu lokaskoti Njarðvíkinga og þegar funheitur maðurinn sleppti tuðrunni fyrir utan þriggja stiga línuna hélt margur Hafnfirðingurinn niðri í sér andanum og… andaði léttar þegar skotið fyrir leiknum geigaði.
Hvað ungur nemur gamall temur
Logi Gunnarsson var frábær í kvöld. Logi hélt Njarðvík við efnið á mikilvægum köflum leiksins og þá tók hann líka ungan mann í smá kennslustund. Ingvi Þór Guðmundsson var að kynda í einum af landsleikjahæstu leikmönnum Íslandssögunnar og því var svarað með 30 stiga leik. Ingvi slapp á braut með stigin í kvöld en þegar hann reyndi holræsaleikinn við Loga þá var þeim tilburðum skolað snögglega í burtu. Klafs hjá þessum köppum, Logi maður vallarins og Ingvi Þór átti einnig mjög góðan dag í liði Hauka.
Næst á dagskrá Hauka er annað lið í Reykjanesbæ þegar Keflvíkingar mæta í Ólafssal 18. janúar en Njarðvíkingar halda í Skagafjörð og mæta Tindastól þann 17. janúar.