Fyrrum liðsmenn ÍKF heiðursgestir í fyrsta leikPrenta

Körfubolti

Áður en viðureign Njarðvíkur og ÍR var flautuð í gang í gærkvöldi voru heiðursgestir leiksins kynntir til leiks en það voru fyrrum liðsmenn ÍKF. Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar var fyrst liða til að hafa sigur á Íslandsmótinu í körfuknattleik árið 1952 og var sigur liðsins „hinn glæsilegasti“ eins og Morgunblaðið orðaði það á sínum tíma.

ÍKF vann alls fjóra titla til ársins 1969 áður en það varð að körfuknattleiksdeild Njarðvíkur. Af þessum sökum voru meistarafánar ÍKF settir á sinn virðingarsess í Ljónagryfjunni. Fyrrum liðsmenn ÍKF sem áttu þess kost að vera heiðursgestir leiksins í gærkvöldi voru þeir Hilmar Hafsteinsson, Kristbjörn Albertsson, Gunnar Þorvarðarson, Guðni Kjartansson, Einar Gunnarsson, Þórður Segure, Runólfur Sölvason og Helgi Hólm en allir komu þeir við á einhverjum tímapunkti í starfi ÍKF á einn eða annan hátt.

Vallargestir gáfu þessum heiðursmönnum viðeigandi lófatak og rúsína í pylsuendanum var að sjálfsögðu sú að Ljónin færðu heiðursgestum sínum sigur gegn ÍR og 1-0 stöðu í seríunni.

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur vill koma á framfæri þakklæti af þessu tilefni til Rúnna Magg sem lét útbúa fánana.

Myndir/ Efsta mynd og næstefsta er frá heiðursgestum leiksins í gær en svarthvítu myndirnar hér að neðan úr starfi ÍKF.