Fyrsti leikur kvennaflokks á stórum velli í Íslandsmóti
Stelpurnar í 4. flokki Njarðvíkur spiluðu sinn fyrsta leik í Íslandsmótinu þriðjudaginn 18. maí síðastliðinn þegar Breiðabliks stúlkur komu í heimsókn í Reykjaneshöllina. Þetta var stór dagur þar sem þetta var jafnframt í fyrsta skipti í sögu félagsins sem Njarðvík sendir til leiks kvennalið á Íslandsmótið í knattspyrnu á leikvelli í fullri stærð. Stelpurnar okkar því að brjóta blað í sögu félagsins og skrá sig í sögubækurnar. Þetta er flottur áfangi enda félagið búið að vera að stefna að þessu síðastliðin fjögur ár frá því við byrjuðum af krafti með kvennaknattspyrnu í Njarðvík í yngstu flokkunum.
Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-2 sigur í hörkuleik, þær sem skoruðu okkar fyrstu mörk í Íslandsmótinu voru Una Bergþóra Ólafsdóttir, Hafdís Rán Húnbogadóttir og Elísabet María Þórisdóttir. Þjálfarar liðsins eru þau Þórir Rafn Hauksson og Dagmar Þráinsdóttir.
Kolbrún Dís Snorradóttir leikmaður liðsins var svo óheppin að meiðast í leiknum og þurfti að fara upp á heilsugæslu í hálfleik. Það vantar því hana á liðsmyndina sem var tekin að leik loknum.
Liðsmynd frá leik leik liðsins fyrir leik Snæfellsnes og Njarðvíkur í Faxaflóamótinu í vetur. Kolbrún Dís er önnur frá hægri í efri röð.
Áfram Njarðvík