Fyrsti leikur meistaraflokks kvenna í sögunniPrenta

UMFN

Sögulegur dagur hjá Knattspyrnudeild Njarðvíkur!

Fyrsti leikur meistaraflokksleiks kvenna í sögu Knattspyrnudeildar Njarðvíkur var spilaður fyrr í dag.

Leikurinn var í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins, og leikið var gegn nágrönnum okkar frá Grindavík.
Leikar enduðu 0-6 fyrir Grindavík, en staðan í leikhléi var 0-2.

Lið Njarðvíkur var skipað nokkrum ungum og efnilegum stelpum úr unglingastarfinu okkar, ásamt stelpum víða af Suðurnesjunum sem hafa æft saman í vetur.

Leikurinn í dag var eitt skref af mörgum hjá Njarðvík í uppbyggingu kvennaknattspyrnunar hjá félaginu og í Reykjanesbæ.

Fyrir örfáum árum voru aðeins karlaflokkar í Njarðvík en í dag æfa um 100 stelpur hjá félaginu í 3.-8. flokki. Mikið og gott uppbyggingarstarf í kvennaknattspyrnu hefur verið í gangi hjá Njarðvík undanfarin ár og var því stór dagur hjá okkur í dag að tefla fram meistaraflokki í fyrsta skipti.
Liðið tekur aðeins þátt í bikarkeppninni í ár en stefnt er á þátttöku í Íslandsmóti á allra næstu árum.

Knattspyrnudeildin þakkar öllum þeim sem lögðu leið sína á völlinn í dag, og þakkar þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa komið að uppbyggingu kvennastarfs Knattspyrnudeildar Njarðvíkur síðustu ár.

Áfram Njarðvík!

Mynd fengin frá VF/JPK