Gísli Þór Þórarinsson kveðja frá Knattspyrnudeild UMFNPrenta

Fótbolti

Það voru hörmulegar fréttir sem bárust frá Noregi laugardagsmorguninn 27. apríl sl. Að vinur okkar og félagi Gísli Þór Þórarinsson hefði látist þá um nóttina.

Gísli Þór var í stórum hópi drengja fæddum 1978, sem hófu ungir að æfa fótbolta hjá Njarðvík og nokkrir þeirra náði alla leið í meistaraflokk. Gísli Þór einn af þeim. Hann lék rúmlega áttatíu leiki með meistaraflokki Njarðvíkur á árunum 1996 til 2002. Þá lék hann einnig fjölmarga leiki með Reyni Sandgerði. Hann spilaði ekki bara fótbolta hjá Njarðvík, heldur var hann virkur á ýmsum vígstöðum. Hann sá m.a. um heimasíðuna á fyrstu árum umfn.is, gaf út „Boltabríkina“ á leikjum meistaraflokks og skemmti sér vel þegar skrif hans hittu í mark einhverstaðar. Oftsinnis svo um munaði. Eitt það eftirminnilegasta sem hann tók sér fyrir hendur var stuttmyndin „Auga dýrsins“, þar sem hann fékk nokkra leikmenn og félagsmenn til að leika í. Þá virkjaði hann einnig nokkra leikmenn í hljómsveitina Geisla.  Hann kom að þjálfun yngri flokka, var kynnir og DJ á leikjum og sinnti einnig dómgæslu. Gísli Þór var góður dómari og menn komust ekki upp með neitt múður í leikjum hjá honum.

Við sem vorum samtímamenn hans hjá Njarðvík, minnumst hans sem góðs og skemmtilegs félaga. Síðustu daga höfum við margir minnst skemmtilegra atvika og uppátækja frá þeim tíma. Eitt af þeim var nú þessi „dýrkun“ hans á Robbie Fowler, fyrrum leikmanns Liverpool. Enda hafa eflaust margir haldið að hann hafi heitið Gísli Fowler!

Knattspyrnudeild Njarðvíkur þakkar Gísla Þór fyrir hans tíma og störf fyrir deildinna og sendir innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda hans og vina.

Minningin um góðan dreng lifir,

hvíl í friði Gísli Þór Þórarinsson.