Gjaldþrot í Breiðholti – Oddaleikur á mánudagPrenta

Körfubolti

Okkar menn mega muna fífil sinn fegurri þessa dagana en í kvöld komust þeir ekki lönd né strönd gegn spræku og vel undirbúnu liði ÍR sem rúlluðu upp sigri í Breiðholtinu 87:79 og oddaleikur verður háður á mánudag í Ljónagryfjunni.

 

Allir leikmenn langt frá sínu besta og í raun megnið af leiknum var einstaklingshlutverkið sem réði ríkjum í sóknarleiknum og varnarleikurinn á hælunum sem gerði það að verkum að ÍR spiluðu einn sinn allra besta leik í vetur.

 

Það var rétt undir lok leiks að hlutirnir fóru að ganga upp þegar lið okkar mættu ÍR af sömu ákefð í varnarleiknum og þeim hafði verið sýnt af heimamönnum allt kvöldið.  En því miður var það allt of seint í rassinn gripið og því þurfum við að fella okkur við það að spila oddaleik á mánudag sem fyrr segir.

 

Það er því útkall á mánudag Njarðvíkingar – Við þurfum allar hendur uppá þilfarið að hvetja drengina okkar til sigurs.  Við heitum því að ef þið mætið, þá mæta strákarnir til leiks og tryggja farseðilinn í undanúrslit.