Glæsilegu unglingalandsmóti lokið: Njarðvíkingar létu til sín takaPrenta

UMFN

Hið árlega unglingalandsmót UMFÍ fór loks fram að nýju eftir tveggja ára hlé sökum heimsfaraldurs COVID-19. Félagar í UMFN létu sitt ekki eftir liggja við mótið sem að þessu sinni fór fram á Selfossi við fyrirmyndar aðstæður. Liðlega 20 iðkendur félagsins voru skráðir til keppni en tæplega 1000 keppendur voru við mótið.

Óhætt er að fullyrða að á Selfossi hefur mikið kapp verið lagt í að byggja upp myndarlega íþróttaaðstöðu og má þess geta að á einum og sama vettvangi fór þorrinn af mótinu fram. Selfyssingar hafa þrjá samliggjandi knattspyrnuvelli sem eru grasvöllur og gervigrasvöllur og knatthöll og allir standa þessir vellir við fullbúinn frjálsíþróttavöll. Þar var líka komið fyrir strandblaks- og strandhandboltavelli við enda knatthússins. Skammt undan er svo íþróttahúsið Iða og íþróttahús Vallaskóla. Allt í göngufæri sem skapaði mikla og góða stemmningu fyrir mótsgesti.

Njarðvíkingar kepptu meðal annars í knattspyrnu, körfuknattleik, strandhandbolta, frjálsum, sundi, götuhjólreiðum og kökuskreytingum svo eitthvað sé nefnt. Ljónynjur urðu Landsmótsmeistarar í körfubolta í flokki 13-14 ára stúlkna en liðið skipuðu leikmenn úr 2008 árangi Njarðvíkur. Grænir komu víða við þessa helgina og ekki loku fyrir það skotið að frjálsíþróttaáhugi sé að fæðast í félaginu.

Sigurliðið „Ljónynjur” í körfubolta 13-14 ára stúlkna

Á unglingalandsmóti UMFÍ er fjöldinn allur af greinum í boði fyrir þátttakendur á aldrinum 11-18 ára og er þess ekki krafist að viðkomandi hafi æft íþróttina að einhverju ráði áður en skráð er til leiks. Við mótið var m.a. hægt að skrá sig í bogfimi, frisbígolf, glímu, götuhjólreiðar, fótbolta, körfubolta, pílukast, strandhandbolta, upplestur, kökuskreytingar og margt fleira. Þá gátu yngri systkini keppenda einnig tekið þátt í kynningum á hinum ýmsu greinum sem var mjög vel tekið hjá yngstu kynslóðinni.

Á kvöldin var mótsgestum svo skemmt af valinkunnum hópi listamanna þar sem dans og söngur dunaði fram á kvöld. Vel rættist úr veðurspá helgarinnar og var þurrt að mestu. Skipuleggjendur stóðu sig með prýði enda viðlíka framkvæmd vandasamt verk þar sem margt þarf að ganga upp. Við hjá UMFN óskum UMFÍ og heimafólki á Selfossi til hamingju með glæsilegt unglingalandsmót 2022.

Við hvetjum félagsmenn UMFN og forráðamenn þeirra til þess að fylgjast sérstaklega vel með þegar skráningar á mótið hefjast fyrir árið 2023 á Sauðárkróki. Ungmennafélag Njarðvíkur hvetur alla Njarðvíkinga til þess að skoða vel þennan möguleika á flottri fjölskyldu- og íþróttahátíð um verzlunarmannahelgina ár hvert.

Hér má skoða nánar um unglingalandsmótið 2022

Ávarp forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar á unglingalandsmóti UMFÍ 2022

Myndir/ úr einkasafni