Þriðji sigurinn í röð í Domino´s-deildinni og þessi var af dýrari gerðinni, 75-78 gegn Íslandsmeisturum KR í DHL-Höllinni þeirra. Frábær frammistaða og menn héldu vel á spilunm í spennandi lokaspretti leiksins og uppskáru verðskuldaðan sigur. Chaz Williams var stigahæstur í kvöld með 19 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar og næstur honum var Mario Matasovic með 16 stig og 9 fráköst.
Með sigrinum sitjum við í 6. sæti deildarinnar en Þór Þorlákshöfn, Haukar og ÍR hafa einnig 8 stig. Næsti leikur í deild er í Njarðtaks-gryfjunni 28. nóvember þegar Haukar koma í heimsókn.
Eins og við var að búast þegar Njarðvíkingar voru komnir með álitlega forystu tóku meistararnir áhlaup og jöfnuðu metin og úr varð spennandi lokasprettur. Í stöðunni 64-66 með um fjórar mínútur til leiksloka setti Chaz, maður leiksins, niður gríðarlega stóran þrist og jók muninn í 64-69 og eftir það var KR ekki hleypt nærri kjötkötlunum og tvö öflug stig í sarpinn.
Við viljum nota tækifærið hér og minna á toppslaginn í 1. deild kvenna á sunnudag þegar Njarðvíkurkonur fá Tindastól í heimsókn í Njarðtaks-gryfjuna kl. 16.
Tölfræði leiksins: KR 75-78 Njarðvík