B-lið 8. flokks stúlkna leikur í C-riðli og var mót hjá þeim í Akurskóla laugardaginn 28. janúar síðastliðinn. Fyrsti leikurinn var gegn Fjölni og náðu njarðvízkar forystu í öðrum leikhluta sem þær létu ekki af hendi. Stelpurnar unnu annan, þriðja og fjórðu leikhluta og enduðu leikinn með ellefu stiga mun, 37-26. Að öðrum leikmönnum ólöstuðum þá stóð María Lovísa sig best í þessum leik. Sýndi hún mikla baráttu í vörninni og leysti leikstjórnendahlutverkið ófeimin af hendi. Eva Sólan var stigahæst.
Annar leikurinn var gegn Breiðablik sem hefur reynst okkar stelpur erfiður hjallur í gegnum tíðina og tveir tapleikir að baki á þessu tímabili gegn þeim. Stelpurnar blésu á söguna og náðu forystunni strax í fyrsta leikhluta 10-6. Júlía Steinunn kveikti í sínum samherjum með sniðskoti, stolnum bolta strax í kjölfarið og þristi þar sem þjálfarinn sagði „Nei, nei, ja svei mér!“ Endaði leikurinn með öruggum sigri 43-16 og voru þær Eva Sólan og Júlía stigahæstar að þessu sinni.
Síðasti leikurinn var gegn Stjörnunni og var það úrslitaleikur um hvort liðið færi upp í B-riðil. Mættust þar A-lið Stjörnunnar og B-lið okkar og varð ljóst strax í upphafi að líkamsstyrkurinn lá Stjörnumeginn enda rötuðu flest fráköstin í leiknum í hendur Garðabæjarstúlkna. Þær náðu 10-5 forystu í fyrsta leikhluta og héldu njarðvízkum stigalausum í öðrum leikhluta og leiddu að honum loknum 15-5. Mótlætið dró úr vilja okkar stúlkna og var Katrín Freyja ein af fáum sem létu ekki mótlætið draga úr sér kraft. Voru þær Katrínarnar (Freyja og Júlía) öflugastar okkar stelpna í leiknum sem endaði með 42-23 sigri Stjörnustelpna.