Í kvöld verður innansveitarglíma Keflavíkur og Njarðvíkur í Subwaydeild kvenna. Toppslagur af bestu gerð sem fram fer í Blue-höllinni. Viðureignin hefst kl. 19:15 og er lokaleikurinn í tíundu umferð deildarinnar. Með sigri í kvöld eiga ljónynjur kost á því að tylla sér á toppinn. Þið mætið græn og með læti!
Okkar konur eru á flottri siglingu með sigur í síðustu þremur umferðum en það voru svo nýliðar Þórs sem stöðvuðu sigurgöngu Keflavíkur í síðustu umferð. Ljóst er að það verður hart barist fyrir þeim tveimur stigum sem eru á boðstólunum í kvöld.
Á körfuknattleiksþingi 2023 var samþykkt breyting á Subway deild kvenna, þannig að deildin skiptist upp í A og B deild eftir 18. umferð, eins og segir í 22. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót. „Þegar leikin hefur verið tvöföld umferð skal skipta deildinni upp í A deild, sem er skipuð fimm efstu liðunum, og B deild sem er skipuð fimm neðstu liðunum. Innan hvorrar deildar skal leikin tvöföld umferð. Lið raðast í lokastöðu deildarinnar samkvæmt reglum FIBA, ef reglugerð um körfuknattleiksmót kveður ekki á um annað.“
Að þessu sögðu hér að ofan er ljóst að hvert stig verður mikilvægt í baráttunni um að ná topp 5 sæti í deildinni.
Fyrir fánann og UMFN!