Grátlegt tap gegn VíkingPrenta

Fótbolti

Úrvalsdeildarlið Víkinga úr Reykjavík sótti Njarðvík heim í Lengjubikarnum í Reykjaneshöllina í kvöld og höfðu sigur 2 – 3. Í raun stálu þeir sigrinum í uppbótartíma, eftir að heimamenn höfðu gert sig mun líklergri til þess að gera sigurmarkið og fóru illa með gott færi skömmu fyrir leikslok.

Víkingar byrjuðu betur og settu á okkur tvö mörk með tveggja mín. millibili eftir um stundarfjörðungs leik. Ansi ódýr mörk verður að segjast og það fyrsta skrifast sem sjálfsmark, en vorum samt að spila ágætlega en það var eins og einhvern kraft vantaði í okkar menn og Víkingar með þægilega 0 – 2 forystu í hálfleik.

Eftir hlé mættu okkar piltar mun einbeittari til leiks, náðu góðum tökum á leiknum. Gerðu oft harða hríð að marki Víkinga. Það var svo Atli Freyr Ottesen Pálsson sem gerði fallegt mark á 62. mín., með bylmingsskoti utan teigs. Strákarnir létu ekki þar við sitja heldur settu enn meiri pressu á úrvalsdeildarliðið, sem skilaði jöfnunarmarki sem Neil Slooves skoraði með skalla eftir aukaspyrnu, þega korter lifði leiks.

Eftir jöfnunarmarkið voru Njarðvíkingar mun sókndjarfari í sínum aðgerðum og hefði ekki verið ósanngjarnt að ná að kreista fram sigur, en til þess fengum við algjört dauðafæri og nokkur álitleg upphlaup. En það voru svo Víkingar sem náðu að gera sigurmarkið nokkrum andartökum áður en flautað var til leiksloka, eins og áður segir, þvert gegn gangi leiksins.

Þetta var annars bara fín frammistaða hjá okkur í kvöld og allt annað að sjá til liðsins í seinnihálfleik þegar menn settu hausinn upp og létu finna vel fyrir sér. Nú tekur við hlé á keppni í Lengjubikarnum til 10. mars þegar Bikarmeistarar ÍBV koma í heimsókn.

Leikskýrslan Njarðvík – Víkingur R 

Mynd/ Markaskorararnir Neil og Atli Freyr