Heimaleikjavika framundan í LjónagryfjunniPrenta

Körfubolti

Nóg verður við að vera í Ljónagryfjunni þessa vikuna. Okkar lið eru að koma af rýrri uppskeru á Norðurlandi eftir skelli gegn Tindastól og Þór Akureyri og við sem þekkjum til þeirra vitum að þau geta ekki beðið eftir því að komast aftur út á parketið og rétta sinn hlut!

Heimaleikjavikan hefst með viðureign Njarðvíkur og Hauka kl. 19:15 í Ljónagryfjunni fimmtudaginn 1. nóvember í Domino´s-deild karla. Ljónin hafa beðið lengi eftir þessum leik, Haukar kjöldrógu okkur í Ljónagryfjunni á síðasta tímabili og nú er komið að skuldadögum!

Á laugardag 3. nóvember mætir svo Tindastóll í heimsókn í 1. deild kvenna en viðureignin hefst kl. 13:00. Stólarnir hafa unnið einn leik til þessa en tapað tveimur á meðan Njarðvíkurliðið er með 50% vinningshlutfall eftir fjóra leiki.

Strax næsta dag eða sunnudaginn 4. nóvember verður bikarleikur Njarðvíkur og Vals í Geysisbikar karla kl. 19:15 í Ljónagryfjunni. Leikið er í 32-liða úrslitum og þegar liðin mættust fyrr á þessu tímabili í Ljónagryfjunni var um spennuslag að ræða. Það verður því nóg við að vera næstu daga í Ljónagryfjunni og við að sjálfsögðu hvetjum alla Njarðvíkinga til að fjölmenna.

#ÁframNjarðvík