Helstu upplýsingar í upphafi tímabils yngri flokkaPrenta

Körfubolti

Kynningarfundur barna- og unglingaráðs Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur fór fram þriðjudagskvöldið 6. september síðastliðinn. Fundurinn var opinn öllum foreldrum og forráðamönnum iðkenda í félaginu. Guðmundur Helgi Albertsson meðlimur í barna- og unglingaráði stýrði fundinum en ásamt honum tóku til máls Logi Gunnarsson yfirþjálfari og Hreiðar Haraldsson frá Haus Hugarþjálfun.

Eins og margir hafa orðið varir við er keppni þegar hafin hjá elstu yngri flokkum félagsins og æfingatafla vetrarins og þjálfarar allra flokka þegar kynntir til leiks. Æfingatöflu má nálgast hér.

Rétt eins og á síðustu leiktíð fara skráningar fram í gegnum Sportabler og þá viljum við benda á þennan hlekk hér fyrir upplýsingar um viðtalstíma þjálfara félagsins.

Foreldrar og forráðamenn sem þurfa að hafa samband við barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur er bent á að senda tölvupóst á unglingarad@umfn.is

Búningar
Njarðvík leikur í búningum frá Macron. Hér er vefsvæði Njarðvíkur á heimasíðu Macron. Það getur tekið allt að 4-6 vikur að fá búning afgreiddan og því hvetjum við foreldra/forráðamenn til þess að panta tímanlega.

Á leiktíðinni verður iðkendum í 7. flokki og eldri boðið upp á dagskrá Haus Hugarþjálfunar og munu gögn og upplýsingar um þá þjálfun verða sett inn á Sportabler hjá öllum flokkum. Þá verður einnig boðið upp á styrktarþjálfun fyrir 7. flokk og eldri og er sú þjónusta bæði inni í æfingagjöldum og hluti af æfingatöflu.

Í upphafi annar eiga þjálfarar að hafa foreldrafundi þar sem farið verður yfir dagskrá hvers flokks fyrir sig og mun þjálfari óska eftir tveimur fulltrúum foreldra fyrir flokkinn. Þjálfarar munu hafa að lágmarki tvo hópeflisviðburði fyrir sína flokka, annan fyrir áramót og hinn eftir áramót. Keppnisdagatal KKÍ fyrir alla flokka má finna hér athugið að það getur tekið breytingum.

Hjá Njarðvík er þjálfað eftir handbók félagsins og er hægt að kynna sér áherslur í hverjum flokki innan handbókarinnar með því að smella hér.

Í lok fundar fór Logi Gunnarsson yfirþjálfari yfir helstu breytingar í þjálfarahópi félagsins og kynnti þá sérstaklega til leiks Bruno Richotti sem ráðinn var til félagsins í lok sumars. Bruno hefur hlotið yfirgripsmikla þjálfaramenntun á Spáni og er félaginu kunnur þar sem bróðir hans Nico Richotti lék með Njarðvík á síðustu leiktíð. Alla þjálfara hvers flokks má sjá hér.

Í vetur verða áfram í boði morgunæfingar og verða þær kynntar sérstaklega á næstu vikum og þá viljum við einnig hvetja alla til þess að vera duglega að mæta á leiki í Ljónagryfjunni á komandi tímabili. Komandi leiktíð verður síðasta leiktíðin sem meistaraflokkar Njarðvíkur leika í Ljónagryfjunni áður en félagið heldur inn á nýja heimavöllinn sinn, Stapaskóla.