Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mun tefla fram tveimur nýjum liðsmönnum þegar leiktímabilið fer aftur í gang í Domino´s-deild karla og 1. deild kvenna en nýverið var gengið frá samningi við Antonio Hester og Chelsea Jennings. Hester er landsmönnum að góðu kunnur en Jennings hefur nýverið leikið í bæði Egyptalandi og Þýskalandi. Báðir leikmannasamningarnir eru með fyrirvara um að leiktíðin í Domino´s-deild karla og 1. deild kvenna fari aftur af stað.
Skömmu áður en æfingar hófust á nýjan leik höfðu þeir Zvonko Buljan og Ryan Montgomery beðist lausnar á samningum sínum hjá Njarðvík. Vildu þeir báðir halda heim á leið og vera í návist við fjölskyldur sínar á meðan heimsfaraldur COVID-19 geysar enn. Ashley Grey sem ráðin var til kvennaliðs Njarðvíkur var svo leyst undan samningi vegna meiðsla og þá vildi hún einnig líkt og þeir Buljan og Montgomery takst á við faraldurinn í faðmi sinnar fjölskyldu. Að ofangreindu hefur stjórn KKD UMFN í samráði við þjálfara félagsins samið við þau Hester og Jennings um að taka slaginn með Njarðvík ef mótahald kemst aftur af stað.
Meistaraflokkar Njarðvíkur hafa nýverið fengið að snúa aftur til æfinga sem er mikið fagnaðarefni og vonandi skýrist sem allra fyrst hvenær hægt verði að útfæra og hefja keppni á nýjan leik. Ljóst má vera að íþrótta- og lýðheilsustarf í landinu hefur fengið sitt stærsta högg frá upphafi en við trúum því og treystum að allir muni leggja sín lóð á vogarskálarnar við að endurreisa það mikilvæga og góða starf sem fram fer í íslensku íþróttahreyfingunni.