Undirbúningur fyrir HM í kraftlyftingum er í fullum gangi enda í mörg horn að líta fyrir mót af þessari stærðargráðu. Mótið fer fram í Njarðvík dagana 11.–17. nóvember og er búist við mjög góðri þátttöku, því án efa munu einhverjir keppendur freista þess að vinna sér inn keppnisrétt á World Games 2025.
Samningur vegna mótsins var undirritaður við hátíðlega athöfn á RIG og undirbúningur heldur áfram af miklum krafti. Hluti af undirbúningi fyrir mótið voru nokkrir fundir fyrr í þessari viku en þá funduðu Hinrik Pálsson formaður KRAFT og Gaston Parage forseti IPF með Andra Stefánssyni framkvæmdarstjóra ÍSÍ og Vésteini Hafsteinssyni afreksstjóra. Þá hittu þeir fulltrúa Íþróttasambands fatlaðra þar sem þátttaka fatlaðra íþróttamanna í kraftlyftingum var rædd og að sérstakur Special Olympics flokkur verði á HM.
Sama dag var haldinn fundur í Reykjanesbæ þar sem mótsstjóri Ellert Björn Ómarsson, Gunnlaug Olsen, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og fleiri slógust í hópinn. Þar voru aðstæður skoðaðar á mótsstað og Magnús Helgi Kristjánsson og Berglind Bára Bjarnadóttir kynntu tölvuteiknaðar útlitsmyndir af keppnissalnum og annarri aðstöðu á mótsstað.