Hrund Skúladóttir semur við NjarðvíkPrenta

Körfubolti

Hrund Skúladóttir hefur ákveðið að söðla um og mun koma til með að spila með Njarðvík næstu tvö árin en samningur þess efnis var undirritaður í gær. Hrund er margfaldur landsliðsmaður yngri landsliða og vissulega gríðarlegt efni. Hrund sem er 17 ára er uppalin Grindvíkingur og spilaði aðeins 15 leiki með liði Grindavíkur síðasta tímabil sökum veikinda.

„Hrund leitaði til okkar og vildi spila með Njarðvík. Allir velkomnir í klúbbinn og þarna er á ferðinni mjög efnilegur leikmaður sem hefur mikla hæfileika og alla burði til þess að banka á dyr A-landsliðsins á komandi árum. Þetta er góð viðbót við okkar unga og flotta lið.” sagði Páll Kristinsson vara-formaður KKD UMFN í snörpu samtali í dag.

Hrund fetar þar með í fótspor systur sinnar Petrúnellu sem varð Íslandsmeistari með Njarðvík árið 2012. „Jú auðvitað set ég markmiðið hátt og vil verða Íslandsmeistari. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt, kynnast nýjum stelpum og öðlast góða reynslu og gera þetta vel. Mér leyst vel á það starf sem er í gangi í Njarðvík og er virkilega spennt fyrir komandi tímabili með nýju liðið.“ sagði Hrund við tækifærið þegar hún var innt eftir því hvers vegna hún færi í Njarðvík.

HrundSkulaUMFN2