Allur aðgangseyrir fer óskiptur í Minningarsjóðinn!
Fimmtudaginn 16. janúar næstkomandi er komið að rjómanum í íslenskum körfuknattleik þegar grannaglíma Njarðvíkur og Keflavíkur fer fram í Njarðtaksgryfjunni kl. 20.15. Þennan daginn verða upp á dag 20 ár frá því að Örlygur Aron Sturluson lést langt fyrir aldur fram af slysförum.
Af þessu tilefni mun allur aðgangseyrir á leikinn renna óskiptur í Minningarsjóð Ölla en hann styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.
Um glæsilega körfuboltaveislu er að ræða þennan dag því Stöð 2 Sport hefur sett upp frábæra dagskrá þennan fimmtudaginn sem hefst 18.10 með viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur frá árinu 1999. Að leik loknum verður Domino´s Körfuboltakvöld með „Í minningu Ölla“ í beinni frá Njarðtaksgryfjunni og kl. 20.15 verður viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í beinni útsendingu. Að leik loknum mun Stöð 2 Sport sýna heimildarmyndina „Ölli“ eftir Garðar Örn Arnarson.
Minning Örlygs Arons Sturlusonar er öllum Njarðvíkingum og körfuknattleiksunnendum um land allt kær og hér er ærið tækifæri til þess að styðja vel við bakið á Minningarsjóði Ölla sem hefur um árabil stutt rækilega við bakið á ungum íþróttaiðkendum.
Bæði Njarðvík og Keflavík eru með lið þetta tímabilið sem ætla sér ekkert annað en Íslandsmeistaratitilinn og þannig viljum við hafa það í Reykjanesbæ. Við hvetjum vallargesti til að mæta snemma til leiks því fyrir leik frá kl. 19.00 verður hægt að gæða sér á grilluðum hamborgurum.
Hér getur þú kynnt þér Minningarsjóð Ölla
#ÁframNjarðvík
#MinningarsjóðurÖlla