Sjávarútvegsfyrirtækið IceMar hefur framlengt samstarfi sínu við Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og verður á komandi leiktíð einn stærsti samstarfsaðili deildarinnar líkt og síðastliðin ár. Njarðvíkingar ættu að þekkja vel til Icemar en þar ræður Gunnar Örlygsson ríkjum.
Hjá IceMar starfar Teitur bróðir hans Örlygsson við hlið Gunnars og því ekki langt fyrir deildina að sækja inn á miðin með Icemar þar sem systir þeirra Kristín Örlygsdóttir sinnir formennsku hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur.
Bræðurnir eiga það sammerkt að vera margfaldir meistarar með Njarðvík en bæði Gunnar og Kristín hafa gegnt formannsembætti hjá Njarðvík.
IceMar sem flytur hágæða sjávarafurðir um allan heim leggur ekki minni metnað í körfuboltann í Njarðvík enda hafa þeir bræður marga fjöruna sopið í boltanum. Eins og við höfum áður komið inn á hér á umfn.is þá skiptir samstarf við fólk og fyrirtæki í samfélaginu höfuð máli við rekstur deildarinnar því Njarðvíkingar ætla sér aldrei neitt annað en baráttu við toppinn og öflugt starf í yngri flokkum.
Áhugasamir geta kynnt sér nánar starfsemi IceMar hér.
Mynd/ Kristín, Gunnar og Teitur Örlygsbörn við undirritun nýs samstarfs- og styrktarsamnings IceMar og Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.