ÍM 50 2016 fer afar vel af stað hjá okkar fólki í ÍRB. Fyrsti mótsdagur gekk vel og er stúlknamet, lágmark á EMU og tveir íslandsmeistaratitlar komin í hús !
Tveir íslandsmeistaratitlar, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun í einstaklingsgreinum ásamt silfurverðlaunum í 4 x 200m skriðsundi karla og bronsverðlaun í 4 x 200m skriðsundi kvenna var uppskeran á fyrsta degi ÍM 50. Margar og flottar bætingar ásamt góðum sundum sem voru nálægt besta tíma.
Fyrsta titlinum í dag náði Sunneva Dögg Friðriksdóttir með frábæru sundi í 400m skriðsundi á tímanum 4,20,66 þar sem hún slátraði stúlknametinu í greininni (4,23,24) og var eingöngu 2/10 frá íslandsmeti kvenna (4.20,44). Vel gert Sunneva 🙂
Þröstur Bjarnason bætti síðan við seinni titli dagsins með geggjuðu sundi í 400m skriðsundi, þar sem hann hækkaði verulega blóðþrýstinginn hjá þjálfaranum sínum. Hann synti á 4,08,95 og náði lágmörkum á EMU. Sundið útfærði hann þannig að hann synti fyrri 200 á 2,06,63 og seinni 200 á 2,02,32 og stakk alla af. Vel gert Þröstur 🙂
Þeir sundmenn sem unnið hafa Íslandsmeistaratitil eftir fyrstu tvo dagana, frá vinstri: Sunneva, Þröstur, Eydís og Baldvin.
Aðrir sem unnu verðlaun fyrsta daginn voru: Eydís Ósk Kolbeinsdóttir brons í 400m skriðsundi, Karen Mist Arngeirsdóttir silfur í 100m bringusundi og Baldvin Sigmarsson brons í 100m bringusundi.
Annar dagur mótsins var einnig flottur, þrír íslandsmeistaratitlar, tveir sundmenn með lágmark á EMU og einn sundmaður með lágmark á NÆM. 13 sundmenn í úrslitum fullt af bætingum, ásamt helling af verðlaunum.
Baldvin Sigmarsson byrjaði á því að landa fyrsta íslandsmeistaratitlinum í dag með glæsilegu 200m flusundi, Eydís Ósk Kolbeinsdóttur tók síðan næsta titil með glæsibrag í 1500m skriðsundi, þriðja titlilinn tók síðan Þröstur Bjarnason með yfirburðarsigri í 1500m skriðsundi, rúmlega 30 sekúndum á undan næsta manni. Afar vel gert hjá þessum sundmönnum.
Þeir sem unnu til verðlauna annan dag mótsins voru: Gunnhildur Björg Baldursdóttir brons í 200 flugsundi, Ingi Þór Ólafsson brons í 200 flugsundi ,Kristófer Sigurðsson brons í 100m skriðsundi, Karen Mist Arngeirsdóttir silfur í 50m bringusundi, Stefanía Sigurþórsdóttir brons í 200m fjórsundi og Björgvin Theodór Hilmarsson brons í 1500m skriðsundi.
Sunneva Dögg Friðriksdóttir náði lágmörkum á EMU með sínum árangri í 100m skriðsundi og Stefanía Sigurþórsdóttir náði lágmörkum á Norðurlandamót Æskunnar ( NÆM ) með sínum árangri í 200m fjórsundi. Afar vel gert hjá þessum sundmönnum.
Mikil liðsheild, gleði og samheldni ríkir í hópnum.
Post Views: 884