Körfuknattleiksdeild Njarðvík samdi í gærkvöldi við Ingu Leu Ingadóttur til næstu tveggja ára, en Inga Lea er 16 ára gömul og kemur frá Haukum. Inga Lea er 185 cm á hæð og tók þátt í 29 leikjum með meistaraflokki Hauka á síðasta tímabili. Inga Lea var valin í úrvalslið Norðurlandamóts yngri landsliða á dögunum en þar var hún að skila 15,8 stigum og 12,8 fráköstum á leik auk þess sem hún var með 4,0 varin skot, 1,8 stoðsendingu og 1,4 stolinn bolta að meðaltali á leik. Hún verður svo aftur á ferðinni með U16 á EM í Tyrklandi í ágúst.
Einar Árni Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Njarðvík sagðist mjög ánægður að fá þennan efnilega leikmann til liðs við félagið. “Inga Lea er á yngsta ári í 12.flokki en samt með töluverða reynslu miðað við aldur. Við hlökkum mikið til að vinna með henni en hún mun koma inn í meistaraflokkshópinn okkar en það bíða frekari verkefni. Við munum tefla fram B liði í 1.deild næsta vetur og þar skapast mikilvægt verkefni fyrir unga leikmenn í félaginu – verkefni sem við sjáum sem brú úr yngri flokkum upp í meistaraflokkinn þannig að það verða næg verkefni fyrir okkar ungu og efnilegu leikmenn á næstu misserum.”