ÍR-Njarðvík: Leikur tvö í Breiðholti í kvöldPrenta

Körfubolti

Í kvöld fer fram annar leikur Njarðvíkur og ÍR í 8-liða úrslitum Domino´s-deildar karla. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Hertz-hellinum í Breiðholti og það er útkall á Ljónahjörðina að fjölmenna og styðja okkar menn til sigurs!

Fyrri leikurinn var spennuslagur og í gær kom í ljós að Kevin Capers leikmaður ÍR verður í leikbanni í kvöld. Eins og ÍR-ingar sýndu og sönnuðu í fyrsta leik þegar Capers var vikið af velli þá eru þeir samt engin lömb að leika sér við.

Kristinn Pálsson var með á æfingu í gær og þótti komast vel frá henni. Mögulega verður hann í búning í kvöld en það skýrist betur með deginum.

Njarðvík og ÍR hafa aðeins mæst tvisvar sinnum áður í 8-liða úrslitum frá því það fyrirkomulag var sett á laggirnar árið 1995. Fyrri viðureignin var 2005 og þar hafði ÍR betur 2-0 en strax árið á eftir eða 2006 mættust liðin aftur þar sem Ljónin höfðu 2-0 sigur. Árið 2014 var gerð sú breyting á 8-liða úrslitum að vinna þurfti þrjá leiki til að komast í undanúrslit og því Njarðvík og ÍR að mætast í fyrsta sinn við þær aðstæður í 8-liða úrslitum.

Mynd/ Logi Gunnarsson fyrirliði Njarðvíkurliðsins átti nokkrar öflugar rispur í fyrsta leik gegn ÍR.