ÍR gerði góða ferð í Njarðtaksgryfjuna í dag og slapp heim í Breiðholtið með tvö stig í farteskinu eftir spennandi slag. Fólk mun vísast ekki fjölyrða um skotnýtingu leiksins en það var hart barist og þegar mest á þurfti féllu skotin hjá ÍR. Lokatölur 52-61. Reynsluboltinn Birna Eiríksdóttir var stigahæst hjá ÍR í dag með 12 stig en þær Helena Rafnsdóttir og Vilborg Jónsdóttir voru báðar með 12 stig í Njarðvíkurliðinu. Með sigrinum tóks ÍR að jafna Njarðvík að stigum og hafa nú bæði lið 16 stig en Fjölnir og Keflavík b verma toppinn með 20 stig.
Bæði lið komu þokkalega stemmd til leiks, aðallega á varnarendanum því sóknartilburðir beggja liða voru ekki upp á marga fiska. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 10-10 eftir að Jóhanna Lilja Pálsdóttir sallaði niður þrist á lokasekúndum leikhlustans fyrir heimakonur.
Þuríður Birna kom með látum inn af Njarðvíkurbekknum og um miðbik annars leikhluta var hún komin með fjórar villur sem vissi ekki á gott fyrir Njarðvíkinga í teigbaráttunni við Nínu Jenný í stöllur í ÍR. Helena Rafnsdóttir kom fersk inn af tréverkinu í öðrum leikhluta eftir að hafa fengið tvær villur snemma leiks og setti nokkrar góðar körfur sem komu Njarðvík í 24-21 þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks.
Njarðvík leiddi 28-24 í hálfleik en það kostaði sitt þar sem Eva María Lúðvíksdóttir sneri sig illa á ökkla og kom ekki meira við sögu hjá Njarðvík þennan leikinn. Helena Rafnsdóttir var með 10 stig í Njarðvíkurliðinu í hálfleik en hjá ÍR var Birna Eiríksdóttir atkvæðamest með 5 stig.
Helena Rafnsdóttir fékk sína fjórðu villu í upphafi þriðja leikhluta og staðan þá 30-24 Njarðvík í vil. ÍR tók við þetta á rás og jafnaði metin 33-33 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Njarðvík var enn með forystuna að loknum þriðja leikhluta en staðan 40-39 þar sem ÍR setti niður stökkskot á lokasekúndum leikhlutans.
Fjórði fór fjörlega af stað, liðin skiptust á þristum og ÍR komst yfir 43-44. Þegar rúmar fjórar mínútur lifðu leiks settu gestirnir úr Breiðholti niður tvo þrista og komust í 45-52. Njarðvík komst ekki nærri ÍR á nyjan leik og því fóru gestirnir heim með tvö stig. Lokatölur 52-61.
Birna Eiríksdóttir var stigahæst hjá ÍR í dag með 12 stig en þær Helena Rafnsdóttir og Vilborg Jónsdóttir voru báðar með 12 stig í Njarðvíkurliðinu.