Um íslenska glímu
Glíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Talið er að landnámsmenn hafi flutt með sér hingað hin bragðasnauðu fangbrögð Norðurlanda og einnig bragðafang Bretlandseyja. Hér á Íslandi runnu þessi fangbrögð saman í fjölbreytt fang með tökum í föt og fjölda bragða. Það hlaut nafnið Glíma. Íslendingasögur segja víða frá því að menn reyndu með sér í glímu og lesa má í heimildum að meira reyndi á krafta en tækni á þeim tíma. Á þeim öldum sem liðið hafa hefur glíman þróast frá frumstæðu fangi til íþróttar sem gerir miklar kröfur til iðkenda sinna um tækni og snerpu.
Á fyrri öldum þótti enginn maður með mönnum nema hann væri hlutgengur í glímu. Smalamenn tóku eina bröndótta sér til hita og glímt var eftir kirkjuferðir og í landlegum vermanna. Í þjóðsögum grípa afreksmenn oft til glímunnar í viðureign við tröll og útilegumenn og hafa betur með leikni sinni og íþrótt gegn hamremi og ofurafli andstæðinganna. Enn í dag þykir mikið koma til góðra glímumanna og sú stæling og þjálfun sem glímumenn öðlast hefur oft komið sér vel í lífsbaráttunni.
Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir um víða veröld. Þekktastar þeirra eru hið japanska súmó, sem er þó öllu heldur lífsstíll en íþrótt, svissneska sveiflan, (schwingen) og skoska backhold fangið að ógleymdu gouren í Frakklandi. Á seinni árum hafa glímumenn spreytt sig í þrem þeim síðastnefndu með góðum árangri.
Glíman sker sig úr öllum öðrum fangbrögðum á þrennan hátt:
Upprétt staða. Í glímunni skulu menn uppréttir standa. Staða margra fangbragða minnir helst á vinkil en í glímu heitir slíkt bol og er bannað.
Stígandinn. Í glímunni er stigið sem felst í því að menn stíga fram og aftur líkt og í dansi og berast í hring sólarsinnis. Stígandinn er eitt helsta einkenni glímunnar og er til þess fallinn að skapa færi til sóknar og varnar og að ekki verði kyrrstaða. Glímumenn skulu stöðugt stíga, bregða og verjast.
Níð. Í glímu er bannað að fylgja andstæðing eftir í gólfið eða ýta honum niður með afli og þjösnaskap. Slíkt er talið ódrengilegt og í andstöðu við eðli glímunnar sem drengskaparíþróttar. Glímumaður skal leggja andstæðing sinn á glímubragði svo vel útfærðu að dugi til byltu án frekari atbeina. Hugtakið níð er tæpast til í öðrum fangbrögðum.
Ár hvert keppa bestu glímumenn landsins um sigur í Íslandsglímunni. Þar er keppt um Grettisbeltið sem er elsti og veglegasti verðlaunagripur á Íslandi. Íslandsglíman fór fyrst fram á Akureyri árið 1906. Sigurvegari Íslandsglímunnar hlýtur Grettisbeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Íslands.
Síðasta áratuginn hafa konur einnig tekið þátt í glímu með góðum árangri. Stórmót þeirra heitir Freyjuglíman og sigurvegarinn er krýnd glímudrottning. Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.
Á tímum hnattvæðingar reyna þjóðir mjög að halda fram sínum þjóðlegu sérkennum. Slíkt er smáþjóð eins og Íslendingum nauðsyn til að undirstrika sérstöðu sína og þar liggur beinast við að efla glímuna, hina fornu, sérstæðu og glæsilegu þjóðaríþrótt okkar.