Íþróttafólk Njarðvíkur 2025Prenta

UMFN

Val á íþróttafólki Njarðvíkur fór fram í Stapa í Hljómahöll þriðjudaginn 20. janúar með glæsilegri athöfn sem heppnaðist ljómandi vel. En haldið var sameginlegt hóf með Keflavík og Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar líkt og undanfarin tvö ár.

Ungmennafélagið Njarðvík verðlaunar alla þá sem hafa staðið sig framúrskarandi vel fyrir félagið og þykja fremst í sinni íþróttagrein. Hver deild tilnefndi þá einstaklinga sem stóðu sig best í sinni grein á árinu og úr þeim var valið íþróttafólk Njarðvíkur 2025. Við erum afar stolt af því að eiga mikið af framúrskarandi íþróttafólki.

Íþróttakarl Njarðvíkur 2025

Guðmundur Leo Rafnsson er Íþróttakarl Njarðvíkur 2025 en hann var einnig kjörinn íþróttakarl Reykjanesbæjar. Guðmundur Leo hefur verið fastamaður í landsliðinu og hefur átt mjög annríkt í landsliðsverkefnum þetta árið. Hann hefur verið duglegur að endurskrifa metabækur ÍRB í fullorðinsflokki í ýmsum sundum og núna er hann einnig að nálgast Íslandsmetin í 100m og 200m baksundi og skriðsundi. Tímabilið í ár hefur verið mjög langt hjá Guðmundi því hann hefur æft og keppt nánast samfellt frá því júlí 2024 með eingöngu örfáum frídögum.
Keppnisverkefnin hafa verið mjög þétt á þessu tímabili. Smáþjóðaleikar í lok maí, EM í lok júní, HM í lok júlí, World Cup í lok október, Íslandsmótið í byrjun nóvember og svo endaði hann árið á EM 25 í Póllandi í desember en þar náði hann bestum árangri í sinni bestu grein 200m baksundi þar sem hann hafnað í 25. sæti.
Guðmundur Leo vann til sjö Íslandsmeistaratitla á árinu og einnig kom hann hlaðinn verðlaunum frá Smáþjóðaleikum í Andorra eða með alls þrenn gullverðlaun, eitt silfur og tvenn bronsverðlau
Guðmundur Leo er í Afrekslandsliði SSÍ, hann er afar metnaðarfullur, duglegur og frábær fyrirmynd í alla staði. 

Íþróttakona Njarðvíkur 2025

Hulda María Agnarsdóttir er íþróttakona Njarðvíkur 2025. Hulda er ein af okkar allra bestu leikmönnum sem komið hafa upp í gegnum yngri flokka okkar í körfubolta á síðustu árum. Árið 2025 var sérstaklega stórt hjá henni. Hún var í byrjunarliði meistaraflokks kvenna nánast alla leiki og stóð sig gríðarlega vel og tók á sig mikla ábyrgð. Þjálfararnir sýndu henni mikið traust sem skilaði sér sko heldur betur inná vellinum. Í meistaraflokki vann hún bikarmeistaratitil, endaði í 3.sæti í deild og fór alla leið í oddaleik gegn Haukum um Íslandsmeistaratitilinn sem því miður tapaðist í framlengingu. Það sem gleymist aldrei var hinsvegar þriggja stiga skot Huldu undir lok venjulegs leiktíma sem tryggði okkur framlenginguna og allir Njarðvíkingar misstu sig í stúkunni. 
Hulda var valin í U18 hóp landsliðsins á bæði NM í Svíþjóð í Júní sem og EM í Litháen í ágúst. Í bæði skiptin var hún fyrirliði liðsins.
Á lokahófi UMFN var hún valin efnilegasti leikmaður meistaraflokks kvenna af Einari Árna þjálfara ásamt því að vera valin besti leikmaður liðsins af stuðningsmönnum. Hún kórónaði svo lokahófið með því að fá afhentan Áslaugar bikarinn fræga. 
Á yfirstandandi tímabili er Hulda María ein af burðarstólpum meistaraflokks þar sem þær berjast um alla titla. Byrjuðu tímabilið á því að vinna Meistari Meistaranna gegn Haukum og eru í bullandi toppbaráttu þegar þetta er skrifað.

Íþróttafólk hverrar deildar innan Njarðvíkur 2025

Þríþrautakona UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Gunnhildur Gunnarsdóttir

Þríþrautamaður UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Vladyslav Penkovyi

Knattspyrnumaður UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Oumar Diouck

Knattspyrnukona UMFN 2025

Tinna Hrönn Einarsdóttir

Körfuknattleikskona UMFN 2025

Hulda María Agnarsdóttir

Körfuknattleiksmaður UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Veigar Páll Alexandersson

Kraftlyftingakona UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Elsa Pálsdóttir

Kraftlyftingamaður UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Hörður Birkisson

Lyftingakona UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Dísa Edwards

Sundkona UMFN 2025

Ástrós Lovísa Hauksdóttir

Sundmaður UMFN og Reykjanesbæjar 2025

Guðmundur Leo Rafnsson

Elsa Pálsdóttir heiðruð fyrir heims- og Evróputitla

Árið 2025 markaði enn eitt stórkostlegt afreksár á ferli Elsu Pálsdóttur. Hún varð Evrópumeistari í kraftlyftingum með búnaði á EM í Pilsen í Tékklandi, þar sem hún sýndi einstaka yfirburði. Með 160 kg í hnébeygju tryggði hún sér gull, vann silfur í bekkpressu með 77,5 kg og setti heimsmet í réttstöðulyftu með 176 kg áður en hún bætti það enn frekar í 182,5 kg. Samtals lyfti Elsa 420 kg og var stigahæst allra kvenna á mótinu. Ekki nóg með það þá tryggði Elsa sér jafnframt heimsmeistaratitilinn fimmta árið í röð í -76 kg M3 flokki. Með gullverðlaun í hnébeygju og réttstöðulyftu, silfur í bekkpressu og samanlagðan árangur upp á 372,5 kg staðfesti hún stöðu sína sem ein fremsta kraftlyftingakona heims í hennar aldursflokki. Á pallinum síðar sama ár bætti hún enn í afrekaskrána með nýju heimsmeti og Íslandsmeti í hnébeygju, glæsilegri 80 kg bekkpressu og samanlögðum árangri upp á 425,5 kg sem tryggði henni enn einn heimsmeistaratitil. Árangur Elsu Pálsdóttur árið 2025 er ekki aðeins sigur í kílóum talið, heldur innblástur, staðfesting á þrautseigju, aga og óbilandi keppnisskapi.

Íslandsmeistarar 2025

Minnibolti 11 ára stúlkna, UMFN – karfa

5. flokkur karla C, UMFN – fótbolti

Guðmundur Leo Rafnsson, UMFN – sund

Denas Kazulis, UMFN – sund

Adriana Agnes Derti, UMFN -sund

Fannar Snævar Hauksson, UMFN -sund

Börkur Þórðarson, UMFN -3N

Trausti Traustason, UMFN – Massi

Davíð Þór Penalver, UMFN – Massi

Máney Dögg Björgvinsdóttir, UMFN – Massi

Svanur Bergvins Guðmundsson, UMFN – Massi

Ásta Margrét Heimisdóttir, UMFN – Massi

Benedikt Björnsson, UMFN – Massi

Þóra Kristín Hjaltadóttir, UMFN – Massi

Elsa Pálsdóttir, UMFN – Massi

Hörður Birkisson, UMFN – Massi

Jens Elís Kristinsson, UMFN – Massi

Bikarmeistar KKÍ 2025

Njarðvík kvenna bikarmeistarar, UMFN

Fleiri myndir og fréttaefni frá viðburðinum er hægt að skoða á vef Víkurfrétta með því að klikka HÉR