Íþróttamaður ársins 1986Prenta

UMFN

Á tímum sem þessum er kjörið að rifja upp gamla góða tíma og við hendum okkur einhver rúm 30 ár aftur í tímann og rifjum upp þegar Eðvarð Þór Eðvarðsson sundkappi varð íþróttamaður Íslands árið 1986.  Við drepum niður í frétt Morgunblaðsins frá 14. janúar 1986:

EÐVARÐ ÞÓR EÐVARÐSSON hefur verið afkastamikill frá því hann setti sitt fyrsta sveinamet í 100 metra baksundi árið 1977. Hann synti vegalengdina þá á 1:22.50 en fram á þennan dag hefur hann sett á annað hundrað íslandsmet og þar af standa 31 met í dag. Hann er eini íslenski karlmaðurinn sem hefur átt gildandi met í drengja- pilta- og karlaflokki en þeim árangri náði hann 5. desember 1981, þá 14 ára gamall, er hann synti 100 metra baksund á 1:02.40 mínútum.

Met hans í 100 metra baksundi er nú 56.26 sekúndur þannig að hann hefur bætt metið um eina sekúndu á ári frá því 1981.  Eðvarð er fjórði íslenski sundmaðurinn sem átt hefur Norðurlandamet. Hann setti sitt met í fyrra í 200 metra baksundi er hann synti á 2:03.03 mínútum. Þeir sem áður höfðu sett Norðurlandamet voru Sigurður Jónsson í 200 metra bringusundi árið 1950, Hörður Finnsson árið 1964 í 100 metra bringusundi og Guðjón Guðmundsson árið 1972 í 200 metra bringusundi.

Hægt er að lesa fréttir Morgunblaðsins hér að neðan í PDF formi.