Þróttur úr Reykjavík sótti Njarðvíkinga heim í annað skipti í vikunni og núna í fyrsta leiknum í Inkasso-deildinni í sumar á Njarðtaksvellinum. Það var ljóst fyrir leik að veðrið myndi skipa stórt hlutverk í dag.
Leikurinn fór fremur rólega af stað, en bæði lið voru að reyna að spila boltanum við afar erfiðar aðstæður. Þróttarar voru ívið sterkari í fyrriháfleik, enda að leika undan sterkum vindi og hagléli inná milli. Þeir áttu nokkrar hættulegar sóknir á mark Njarðvíkinga en heimamenn náðu að verjast og staðan því jöfn 0-0 í hálfleik.
Heimamenn voru að spila fínan leik og sýndu virkilega góða baráttu og komust í 1 – 0 á 59 mín, þegar Neil Slooves skoraði eftir hornspyrnu frá Stefáni Birgi Jóhannessyni. Við hefðum svo getað gert út um leikinn nokkru síðar, þegar Kenneth Hogg komst í dauðafæri en markmaður Þróttar var vandanum vaxinn. Þróttarar jöfnuðu í uppbótartíma og lokatölur leiksins því 1 -1. Afar svekkjandi, en líklega sanngjarnt.
Þar með er fyrsta stigið í húsi, en strákarnir voru hársbreydd frá því að ná að taka 3 stig í dag. Bæði lið geta samt vel við unað og eiga hrós skilið fyrir að ná að sýna ótrúlega góðan leik miðað við aðstæður. Þá eiga áhorfendur mikið hrós skilið, fyrir að mæta á völlinn í slíkum veðurham.
Njarðvík tefldi fram nýjum markverði í leiknum, Robert Blakala frá Póllandi. Það væri ekki ósanngjarnt að útnefna hann mann leiksins. Varði oft á tíðum frábærlega og var öryggið uppmálað.
Næsti leikur okkar er föstudaginn 11. maí þegar við heimsækjum Leiknismenn í Breiðholtið.
Leikskýrslan Njarðvík – Þróttur R.
Fótbolti.net – viðtal víð Rafn Markús
Mynd/ Mark Njarðvíkinga í uppsiglingu
Aðrar myndir eru úr leiknum í dag