Njarðvík tók á móti Magna frá Grenivík á Njarðtaks-„like“-vellinum, í toppslag 2. deildar nú í kvöld. Jafntefli varð niðurstaðan, bæði lið gerðu eitt mark. Gestirnir voru fyrri til að skora, en á 16. mínútu gerði Lars Óli Jessen glæsilegt mark með bakfallspyrnu úr vítateignum. Markið var nokkuð gegn gangi leiksins, því okkar menn höfðu verið ögn líklegri fram að því og skoruðu í raun úr fyrstu alvöru sókn sinni í leiknum. Eftir markið dofnaði nokkuð yfir heimamönnum og Magni virkaði beinskeittari og gekk betur að halda boltanum innan sinna raða, í norðanrokinu og hörðum vellinum.
En Njarðvík fékk gullið tækifæri til að jafna undir lok fyrri hálfleiks, þegar Andri Fannar fyrirliði lét verja frá sér vítaspyrnu eftir brot á Atla Frey Ottesen og við náðum heldur ekki að nýta frákastið og gestirnir því með foristu í leikhléi.
Njarðvíkurpiltar hófu síðari hálfleik af krafti og fengu upplagt færi strax á upphafsmínútu síðari hálfleiks, en heilladísirnar fjarri góðu gamni. Liðin skiptust á að sækja og náðu bæði að spila furðanlega góða knattspyrnu í miklum norðan vindi sem var þvert á völlinn. Okkar menn þó sínu sterkari, en norðanmenn áttu samt alveg sín tækifæri.
Undir lokin gerðu okkar menn harða hríð að marki gestanna, sérstaklega eftir að þjálfarar Njarðvíkur höfðu fjölgað í sóknarlínunni. En inn vildi boltinn ekki, þrátt fyrir afar góð tækifæri og tvö til þrú verða að teljast algjör dauðafæri.
Það var svo ekki fyrr en komið var fram yfir venjulegan 90 mínútna leiktíma að við náðum loks að jafna metin við gríðarleg fagnaðarlæti stuðningsmanna, sem fjölmenntu þrátt fyri kuldann.
Var þar að verki ungur leikmaðu Krystian Wiktorowicz, sem náði að skjóta sér framhjá vörn gestanna með afar laglegum hætti og leggja knöttinn í netið eftir að hafa leikið fram hjá markverðinum.
Krystian, sem er enn í 2. flokki, tryggði okkur því dýrmætt stig í toppbaráttunni. Hann kom inná þegar um hálftími lifði leiks og hefur nú gert þrjú mörk á samtals á aðeins um 45 mínútum. Ótrúlega vel gert hjá þessum efnilega pilti.
Eftir leikinn sitjum við áfram í efsta sæti 2. deildar með þrjú stig á Magna. Næsti leikur okkar er á laugadaginn 26. ágúst á Egilsstöðum gegn Hetti.
Myndirnar eru í leiknum í kvöld