Jafntefli í nágrannaslagnumPrenta

Fótbolti

Hátt í eitt þúsund áhorfendur settu áhorfendamet á Rafholtsvellinum þegar Njarðvík tók á móti Keflavík í þriðju umferð Inkasso-deildar karla í rjómablíðu í gærkvöldi. Þrátt fyrir nokkuð fjörugan og opinn leik létu mörkin á sér standa, en bæði lið hefðu hæglega getað stolið sigrinum. Jafntefli líklega sanngjörn úrslit, en leiðinlegt fyrir hina fjölmörgu áhorfendur að það skildi verða markalaust. Njarðvíkingar mættu ákveðnir til leiks og voru ívið sterkari aðilinn í fyrrihálfleik, með örlitla golu í bakið. Uppskáru tvö hættuleg færi og var annað þeirra algjört dauðafæri, en Kenny náði ekki að fylgja eftir frákasti í teignum fyrir opnu marki og Keflvíkingar björguðu á línu. Keflavík átti svo hættulegt skallafæri í lokin á fyrrihálfleik, en boltinn hárfínt framhjá.

Gestirnir úr ytra hverfi Reykjanesbæjar mættu tvíefldir til seinnihálfleiks og pressuðu heimamenn ofar á vellinum og áttu nokkrar hættulegar sóknir sem ekki nýttust. Þegar um stundarfjórðungur lifði leiks, áttu heimamenn nokkrar skyndisóknir sem þeir hefðu átt að nýta betur.

Jafntefli 0-0 því staðreynd þegar góður dómari flautaði til leiksloka, í þessum bróðurlega leikna bræðraslag. En það er stutt í næstu viðureign liðanna en þau mætast á ný á þriðjudaginn kemur á Nettovellinum í Mjólkurbikarnu. Knattspyrnudeildin þakkar hinum fjölmörgu áhorfendum sem mættu í kvöld fyrir komuna.

Leikskýrslan Njarðvík – Keflavík
Fótbolti.net – Rafn Markús viðtal

Fótbolti.net – skýrslan
V.F.is – viðtöl eftir leik

Myndirnar eru úr leiknum