Fjörið hefst í kvöld! Úrslitakeppni Domino´s-deildar karla rúllar af stað og í Ljónagryfjunni mætast Njarðvík og ÍR kl. 19:15. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í undanúrslit. Gryfjan verður opin gestum frá kl. 17:30 í dag. Grillaðir borgarar frá kl. 18:15 og þá verður hleypt inn í sal kl. 18:15. Við mætum græn! Til þess að stytta stundirnar fram að leik fengum við Jóa Kristbjörns til þess að rýna í seríurnar en hann segir seríu Njarðvíkur og ÍR vinnast á varnarenda vallarins. Sjáum hvernig úrslitakeppnin birtist Jóa:
Almennt um úrslitakeppnina framundan
Ég spái heimasigrum á línuna þó með þeim fyrirvara að það lið sem gefur heimavallarréttinn eftir, alla vinnu vetrarins, í fyrsta leik á ekki skilið að fara lengra í keppninni. Fyrsti leikur í hverri seríu er því lykilleikur. Njarðvíkingar gáfu deildarmeistaratitilinn eftir, með tapi gegn Haukum þann 1. febrúar. Það þýðir að leið þeirra að titlinum fer í gegnum Skagafjörð sem er erfiðasta leiðin í úrslitin og hætt við að ljónin verði útslitin takist þeim það.
Stjarnan – Grindavík
Stjarna Garðbæinga hefur aldrei verið skinið skærar og þeir í raun í dauðafæri við afar sjaldgæfa þrennu. Naglarnir hans Arnars munu fara 3-0 í gegnum þessa seríu. Ægir Þór Steinarsson er þeirra lykilmaður en koma Brandon Rozzell leysti hann úr aðeins of stórum skóm sóknarmegin og aftur í það hlutverk sem fer honum bezt, að vera óþolandi virkur og harður varnarmaður sem aðeins þarf að henda upp þristi þegar honum er sýnd sú vanvirðing að vera boðið að skjóta (28,6% nýting gegn Grindavík).
Njarðvík – ÍR
Njarðvíkinga bíður erfiðasta leiðin í úrslitin og gætu steytt á skeri í fyrstu umferð. ÍR mun verja heimavöllinn alla leið og þessi sería verður ekki útkljáð fyrr en í fimmta leik í Ljónagryfjunni. Eina sem ég get lofað þar, er að Ghettó-Hooligans verða ekki kýldir kaldir fyrir það eitt að rífa smá kjaft og ég hef ekki trú á öðru en að „slagurinn“ í stúkunni verði jafn spennandi og sá sem fer fram á vellinum. Þessi sería verður unnin varnarmegin á vellinum.
Tindastóll – Þór
Ég hef bullandi trú á kolalestinni úr Skagafirðinum í viðureigninni við Þórsara þrátt fyrir frábært tímabil hjá Baldri þjálfara, Tomsick og þá staðreynd að Kinu Rochford er í smá uppáhaldi hjá mér. Minnir mig á John Rhodes nokkurn sem lék með Haukum og ÍR hér á árum áður. Harðduglegur, ódrepandi baráttujaxl sem smitar jákvæðni og gleði í aðra leikmenn. Þrátt fyrir þetta er Tindastólsliðið einfaldlega sterkara. Komnir með nauðsynlega reynslu, hafa unnið titil og klúðrað titlum frá sér líka. Eru að auki búnir að sjá tímabilið næstum því renna þeim úr greipum en fundu taktinn aftur á síðustu stundu. Þannig lið eru hættulegust og munu þeir taka seríuna 3-1.
Keflavík – KR
Þetta er auðvitað rimma umferðarinnar. Fleyg orð Rudy Tomjanovich um hjarta meistaraliða koma upp í hugann. Það má ekki afskrifa KR. Þá þarf að fella af stallinum og KR-ávöxturinn hefur verið þroskaður ansi lengi. Einu sinni svaraði ég blaðamanni sem bar á okkur liðsfélagana að við værum að verða of gamlir til að vinna titla á þann veginn að við myndum mæta með stafi og göngugrindur og vinna titla þangað til einhver stöðvaði okkur. Ég held að nágrannar mínir úr Keflavík hafi bæði getu, hugarfar og þrjósku til að senda KR í fyrsta vorfríið í langan tíma. Hér mun heimavallarrétturinn og stuðningur áhangenda skipta sköpum. Ég sé Magga Gunn ganga að skiptiborðinu með lítið eftir af fimmta leik í Keflavík.