Jólafrí í Domino´s-deildunumPrenta

Körfubolti

Nú er komið jólafrí í Domino´s-deildum karla og kvenna. Hlutskipti Njarðvíkurliðanna er misjafnt yfir jólahátíðina þetta árið. Karlaliðið er í toppbaráttunni í Domino´s-deild karla en úr leik í bikarnum, kvennaliðið er komið í undanúrslit í bikar en á botninum í deildarkeppninni. Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Karlaliðið er í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en en Haukar, KR, ÍR og Tindastóll eru á toppnum með 16 stig en þennan fyrri hluta hefur deildin verið gríðarlega jöfn og nýliðar Vals sem dæmi í 10. sæti deildarinnar með 8 stig eru aðeins 8 stigum frá toppnum svo það er nokkuð ljóst að fjörið heldur áfram og spennan magnast á nýja árinu.

Kvennaliðið situr á botni Domino´s-deildarinnar án stiga eftir 14 leiki en liðið er komið í undanúrslit Maltbikarsins eftir frækna sigra gegn Breiðablik og Stjörnunni. Erika Williams fékk reisupassann í upphafi leiktíðar og við henni tók Shay Winton sem hefur leitt liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum. Við höfum fulla trú á því að kvennaliðið snúi bökum saman í jólafríinu og finni lykilinn snemma að sínum fyrsta deildarsigri.

Fyrsti leikur karlaliðsins eftir áramót er 4. janúar gegn KR í Ljónagryfjunni. Þeir verða ekki mikið stærri og það er vitað að kjöldráttur KR-inga í síðustu viðureign liðanna í Njarðvík ætti að vera nægilegt eldsneyti á bál okkar manna til að bjóða upp á svakalegan leik! Þá byrjar kvennaliðið heima líka þegar Skallagrímur kemur í heimsókn á þrettándanum 6. janúar með Carmen Tyson-Thomas innanborðs svo Ljónagryfjan mun iða strax í upphafi árs.

Við hvetjum alla Njarðvíkinga til að vera duglega að heimsækja Ljónagryfjuna á árinu 2018, mæta í stúkuna og styðja okkar lið áfram með öflugum og jákvæðum hætti.

#ÁframNjarðvík

Rafholt-logo-1