Keppni hafin í yngri flokkum: 12. flokkur með heimaleik á fimmtudagPrenta

Körfubolti

Keppni er hafin í yngri flokkum og þegar hafa nokkrir flokkar frá Njarðvík hafið sín Íslandsmót. Það var 12. flokkur kvenna sem hóf keppni í yngri flokkum með útileik gegn Haukum. Þar kom grænn sigur 72-79. Ungmennaflokkur karla er einnig kominn í gang og þar hafði Njarðvík betur gegn Val 72-85 á útivelli.

10. flokkur stúlkna byrjaði einnig á sigri 46-62 gegn Breiðablik og 9. flokkur drengja opnaði sitt Íslandsmót í Hveragerði þar sem Hamarsmenn höfðu betur 45-40. Næsti leikur í yngri flokkum er á fimmtudag þegar 12. flokkur kvenna leikur sinn fyrsta heimaleik kl. 20:15 í Ljónagryfjunni þegar grannar okkar í Keflavík koma í heimsókn.

Í yngri flokkum eru það 9. flokkur og eldri sem leika í deildarkeppni en 8. flokkur og yngri leika í fjölliðamótum. Keppni á fjölliðamótum er handan við hornið þar sem 8.flokkur keppir helgina 23.-24. september og 7. flokkur keppir helgina 30. september – 1. október.

Minniboltamótin hefjast einnig helgina 23.-24. september en keppnisdagskrá allra flokka má sjá hér og hér má svo sjá tíma- og staðsetningar allra minniboltamóta vetrarins.

Körfuknattleikssamband Íslands er komið með nýtt mótakerfi í notkun sem heitir GAMEDAY en hægt er að ná í appið hér. Þá er einnig hægt að skoða mótamálin á heimasíðu KKÍ en um þessar mundir er unnið að því, skv upplýsingum frá KKÍ, að gera vefútgáfuna notendavænni fyrir almenning.