Leikmenn UMFN stóðu heiðursvörð
Kristbjörn Albertsson fyrrverandi formaður UMFN féll frá þann 18. júlí síðastliðinn. Útför hans fór fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag þriðjudaginn 26. júlí. Kristbjörn kannast líklega flestir Njarðvíkingar aldir upp í Ljónagryfjunni við, enda áberandi hvar sem hann fór.
Fáir ef þá nokkrir félagsmenn Körfuknattleiksdeildar ÍKF/Njarðvíkur hafa komið jafn víða við og Kristbjörn. Eftir að hafa flutt til Njarðvíkur frá Reykjavík, uppalinn KR-ingur, spilaði Kristbjörn körfuknattleik með ÍKF og svo UMFN eftir að ÍKF gengu í UMFN. Þótti Kristbjörn fara vel með boltann sem leikmaður, eins og genin hafa sannað. Þá sat Kristbjörn einnig í stjórn KKD UMFN um árabil og gegndi formennsku aðalstjórnar UMFN um tíu ára skeið.
Sjálfsagt kannast hvað flestir körfuknattleiksáhugamenn, sérstaklega þeir sem eldri eru, best við Kristbjörn sem besta dómara landsins um árabil. Hann var fyrsti íslenski dómarinn til að afla sér alþjóðaréttinda í dómgæslu. Um árabil dæmdi hann fyrir hönd UMFN. Blaðagreinar með umsögnum um leiki úr heimi knattspyrnunnar er þess getið að Kristbjörn hafi þótt liðtækur knattspyrnudómari að auki.
Kristbjörn var formaður Körfuknattleikssambands Íslands í tvö ár. Samtímis því að vera formaður KKÍ, tók hann fullan þátt í dómgæslu og var m.a. kosinn besti dómari úrvalsdeildarinnar á sama tíma og hann gengdi formennsku KKÍ. Þá var ekki óalgengt að sjá hann á pöllum Ljónagryfjunnar, en það voru einmitt Kristbjörn og félagar sem sátu uppi í stúku sem urðu þess valdir að Íþróttahúsið í Njarðvík fékk þetta nafn Ljónagryfjan, það þótti ekki árennilegt að lenda í klónum á áhorfendum því þar sátu fyrir landsliðsþjálfari, dómari ársins, afi körfuboltans og fleiri og fleiri sem jafnan lágu ekkert á skoðunum sínum og létu andstæðinga heyra það með hárbeyttu orðavali og útskýringum.
Þegar rekstraraðila Félagsheimilisins Stapa vantaði, þá tók Kristbjörn að sér rekstur hússins um skeið. Ávallt reiðubúinn til góðra verka.
Um nokkurra ára skeið sat Kristbjörn í bæjarstórn Njarðvíkur. Þegar ræða átti mál sem ekki var eining um, og stutt í leik, lagði Kristbjörn einfaldlega til að fundi yrði slitið, svo allir kæmust á leik. Menn fóru svo saman á leik, sameinuðust um bíla, skipti þá engu máli í hvaða stjórnmálaflokk eða skoðanir menn aðhylltust, það var verið að fara á leik.
Fjölmargir Njarðvíkingar voru undir handleiðslu Kristbjarnar í Njarðvíkurskóla. Áhugasamur og metnaðarfullur kennari, keppnisskapið ekki langt undan. Það hefur líklega ekki verið allra að halda þekktum ærslabelgjum við efnið, en það gerði Kristbjörn.
Þegar stuðningsmanaklúbburinn í Njarðvík var stofnaður, og besta plássið, sem oft var takmarkað í Ljónagryfjunni var tekið undir stuðningsmannaklúbbinn, þá var Kristbjörn fyrstur til að skrá sig í klúbbinn. Þessi stuðningsmannaklúbbur hefur gegnum árin verið rekstri deildarinnar góð búbót.
Það var á stundum hent gaman að og með Kristbirni, hann lá oft vel við höggi þar sem hann kom víða við sem dómari, húsvörður Stapans, formaður KKÍ, bæjarfulltrúi og hvaðeina sem hann tók sér fyrir hendur, og allt gert af festu og alvöru. Þannig var Kristbjörn, ef hann tók sér eitthvað fyrir hendur, þá var það gert af heilum hug.
Félagið kveður góðan Njarðvíking í Kristbirni Albertssyni. Við minnumst hans með virðingu og einlægri þökk fyrir ómetanlegt starf í þágu UMFN.
Ungmennafélag Njarðvíkur
Myndir/JBÓ: Frá útför Kristjbjarnar frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag þar sem leikmenn frá Körfuknattleiksdeild UMFN og Knattspyrnudeild UMFN stóðu heiðursvörð.