Bikarmót Kraftlyftingafélags Íslands í klassískum kraftlyftingum var haldið á Akureyri 17. febrúar sl. Massi sendi frá sér fjölmennan hóp keppenda á mótið. Ásamt keppendum fylgdu Ellert Björn Ómarsson formaður, Sindri Freyr Arnarsson þjálfari og varaformaður, Halldór Jens Vilhjálmsson þjálfari og Brynjólfur Jökull Bragason meðstjórnandi. Harðir stuðningsmenn Massa mættu einnig á Akureyri, voru það þeir Hafþór Hafsteinsson, Hannes Hólm Elíasson og Lárus Guðmundsson.
Átta keppendur frá Massa tóku þátt á mótinu og voru fimm af þeim að keppa á sínu fyrsta kraftlyftingamóti. Karlalið Massa endaði í 2.sæti í liðakeppni Bikarmótsins á eftir heimamönnum KFA. Kvennalið Massa sigruðu hins vegar liðakeppnina og eru Bikarmeistarar kvenna í klassískum kraftlyftingum 2019!
.
– Elísa Sveinsdóttir keppti í -57kg flokki kvenna. Hún var að taka þátt á sínu fyrsta móti og tók 105kg í hnébeygju, 57,5kg í bekkpressu og 110kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 272,5kg sem skilaði henni 2.sæti í sínum þyngdarflokki.
– Ásta Margrét Heimisdóttir og Hildur Hörn Orradóttir kepptu í -63kg flokki kvenna en þær voru báðar að taka þátt á sínu fyrsta móti. Ásta Margrét tók 115kg í hnébeygju, 72,5kg í bekkpressu og 145kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 332,5kg sem skilaði henni 3.sæti í flokknum. Hildur Hörn tók 125kg í hnébeygju, 60kg í bekkpressu og 147,5kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 332,5kg sem skilaði henni 2.sæti í flokknum. Samanlagður árangur Hildar og Ástu var sá sami en þá ræður líkamsþyngd úrslitum. Hildur Hörn gerði tilraun til að slá Íslandsmet er hún lyfti 135,5kg í hnébeygju. Lyftan fór létt og öruggt upp en var því miður dæmd ógild vegna tæknivillu. Hildur Hörn hefur sett sér það markmið að slá metið seinna á árinu.
– Aþena Eir Jónsdóttir keppti í -72kg flokki kvenna. Hún tók 125kg í hnébeygju, 67,5kg í bekkpressu og 110kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 302,5kg sem skilaði henni 2.sæti í sínum þyngdarflokki.
Ákveðið var að láta Aþenu Eir taka léttari þyngdir í réttstöðunni heldur en hún er vön þar sem hún er í undirbúningi fyrir Íslandsmeistaramót í ólympískum lyftingum sem verður haldið 23.febrúar nk.
– Börkur Kristinsson keppti í -74kg flokki karla en hann var yngsti keppandinn frá Massa, 15 ára. Börkur tók 140kg í hnébeygju, 95kg í bekkpressu og 190kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 425kg sem skilaði honum 3.sæti í sínum þyngdarflokki.
– Jón Grétar Erlingsson keppti í -74kg flokki karla. Hann var að taka þátt í sínu fyrsta móti og tók 150kg í hnébeygju, 110kg í bekkpressu og 200kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 460kg sem skilaði honum 2.sæti í sínum þyngdarflokki.
– Marcin Ostrowski keppti í -93kg flokki karla. Marcin gerði sér lítið fyrir og sló Íslandsmet í bekkpressu á sínu fyrsta kraftlyftingamóti. Hann tók 195kg í hnébeygju, 157,5kg í bekkpressu og 245kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 597,5kg sem skilaði honum 1.sæti í sínum þyngdarflokki.
– Eggert Gunnarsson keppti í -105kg flokki karla. Hann tók 175kg í hnébeygju, 142,5kg í bekkpressu og 220kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur 537,5kg sem skilaði honum 4.sæti í sínum þyngdarflokki. Í 3.sæti var Gabríel sem keppti fyrir Breiðablik en hann tók einnig 537,5kg í samanlagðri þyngd en vigtaðist með léttari líkamsþyngd og tók þar með 3.sætið í flokknum.
.
Heildarúrslit mótsins má finna á síðu Kraftlyftingar samband Íslands
.
Í Massa æfir fólk á öllum aldri kraftlyftingar, ólympískar lyftingar og aflraunir. Æfingar eru alla mánudaga klukkan 17:00 í sal félagsins í Íþróttahúsinu í Njarðvík. Áhugasamir eru hvattir til þess að mæta og kynna sér starfið. Þjálfarar Massa eru Sindri Freyr Arnarsson, Halldór Jens Vilhjálmsson og Sturla Ólafsson.