Kynningarkvöld Körfuknattleiksdeildar UMFN fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík síðastliðið Laugardagskvöld. Um var að ræða fyrsta kynningarkvöldið sem deildin hefur staðið að og vilja stjórn og leikmenn þakka kærlega öllum þeim sem sóttu kvöldið en það er mál manna að einkar vel hafi tekist til í þessari frumraun.
Á kynningarkvöldinu voru boðnir upp fjórir hlutir og þökkum við öllum þeim sem tryggðu sér þessa veglegu gripi stuðning sinn við félagið. Það er okkur sönn ánægja að greina frá því að landsliðsbúningur sem Logi Gunnarsson lék í á EuroBasket í Helsinki fór á 500.000 krónur við kvöldið! Logi er landsleikjahæsti leikmaðurinn sem enn er virkur og sá fjórði landsleikjahæsti í sögunni.
Maggi á Réttinum reiddi fram dýrindis máltíð fyrir gesti, tónlistar- og afrekssundmaðurinn Már Gunnarsson bætti við ljúfum tónum yfir borðhaldinu og þá stýrði Íþróttafrétta-Haukur Harðarson veislunni af mikilli röggsemi. Örvar Kristjánsson las gestum pistilinn af sinni alkunnu snilld og þá tóku þjálfarar meistaraflokkanna til máls og fóru yfir sín lið og sínar áherslur fyrir veturinn. Við viljum einnig þakka Magnúsi Helga Kristjánssyni og félögum í Sonik tækjaleigu fyrir að gera Ljónagryfjuna stórglæsilega á Kynningarkvöldinu.
Nú er okkur ekki lengur til setunnar boðið því tímabilið sjálft hefst á miðvikudag þegar kvennalið Njarðvíkur fær Skallagrím í heimsókn í Ljónagryfjuna kl. 19:15. Fyrir leik geta þeir sem vilja skráð sig í Grænu Ljónin stuðningsmannaklúbb deildarinnar og sala ársmiða hefst svo í næstu viku. Karlalið Njarðvíkur fer svo af stað á fimmtudag þegar liðið mætir Íslands- og bikarmeisturum KR á útivelli.
Þetta er að bresta á góðir Njarðvíkingar, hlökkum til að takast á við tímabilin með ykkur kæru stuðningsmenn.
#ÁframNjarðvík
#ReppaGrænt