Árangurinn kom aðeins seinna hjá honum en öðrum Kristófer Sigurðsson var að koma af sínu fyrsta Heimsmeistaramóti í sundi í Doha, Qatar. Hann náði að synda þar þrjú sund og synti öll sundin á örðum besta tíma sínum og varð með því númer 52 á heimslistanum. Upplifun hans á mótinu var frábær og hann sá allra bestu sundmenn heims setja samtals 21 heimsmet. Það er oft erfitt fyrir foreldra yngri sundmanna að skilja leiðina sem þarf að fara til að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi. Margir halda að Kristófer hafi alltaf verið á toppnum í sundi og þetta hafi bara verið auðveld leið sem kom af sjálfu sér. En eins og kom fram í nýlegu viðtali við hann í Víkurfréttum þá var þetta alls ekki auðvelt og í raun var hann stutt frá því að hætta fyrir ekki svo löngu síðan. Það kemur kannski á óvart að Kristófer komst fyrst í landslið árið 2012 – fyrir aðeins tveimur árum á ÍM25 þegar hann náði inn á Norðurlandameistaramót unglinga (NMU) í fyrsta skipti í 200 og 400 m skriðsundi. Hann var þá nýorðin 17 ára. Hann síðan rétt missti af lágmörkum á Meistaramót unglinga í Evrópu (EMU) í júní 2013 í 200m skriðsundi. Það var mjög erfið upplifun og hefði getað orðið til þess að hann hætti að synda. Ári síðar náði hann inná Heimsmeistaramót í 25m laug en fór frekar á NMU aftur og í þetta skipti kom hann heim með silfur af því móti. Og aðeins 12 mánuðum seinna, nýorðin 19 ára hefur hann keppt á Heimsmeistaramóti. En hvað getum við lært af þessu? Þó að Kristófer hafi auðvitað sýnt hæfileika sem ungur sundmaður þá er það ekki alltaf þeir sem eru bestir ungir sem ná að halda því. Í raun eru margar rannsóknir sem benda til að það eru oft þeir sem þroskast seint sem verða bestu íþróttamennirnir því þeir leggja oft meira á sig til að ná árangri til að vinna upp fyrir t.d. að vera lágvaxnari en aðrir eða þroskast síðar. Sjáið t.d. sundkonuna Lauren Boyle frá Nýja Sjálandi sem setti heimsmet í 1500m skriðsundi á þessu ári og hún er 26 ára. Þrátt fyrir þetta þá er ekki þar með sagt að það að byrja snemma að æfa íþróttina sína hafi ekki áhrif. Sjáið sundmenn eins og Phelps, Thorpe og Mollertyte sem byrjuðu mjög snemma og héldu áfram þangað til þau náðu að setja heimsmet. Sameiginlegt þema hér er að mikil vinna, líkamlega og andlega í langan tíma er það sem skiptir máli þegar komið er í keppni á opnum flokkum meðal eldri sundmanna. Saga Kristófers Kristófer byrjaði að synda með ÍRB 6 ára. Hann byrjaði eins og svo margir aðrir hjá Ólafi Þór Gunnlaugssyni heitnum, fór síðan til Hrafnhildar og Ingvar í stuttan tíma áður en hann fór til Edda, Steindór og nú Anthonys. Margir þjálfara hafa því komið að því að gera hann að þeim sundmanni sem hann er í dag eftir 13 ár í sundi. Aðrar ferðir og keppnir sem Kristófer hefur tekið þátt í eru ferðir á vegum ÍRB. Hann fór fyrst erlendis með liðinu þegar hann var 12 ára en þá fór liðið árið 2008 til Calella í æfingarbúðir. Hann fór svo til Benidorm tveimur árum seinna í aðra æfingarferð. Rétt eftir að hann varð 16 ára, árið 2011, flaug Kristófer til Nýja Sjálands ásamt liðsfélögum sínum Erlu og Jóni Ágústi. Þar æfði hann með gamla félaginu hans Anthonys, North Swimming Club og keppti á meistaramóti Auckland Senior. Þegar hann kom heim frá Nýja Sjálandi fór Kristófer til Sheffield með ÍRB í upphafi árs 2012 og keppti á meistarmóti Northen Regional UK. Þar náði hann þeim einstaka árangri að synda 400m skriðsund í 50m laug og ná inn í úrslit. Seinna þetta sama ár fór hann til Esbjerg í Danmörku í enn einar æfingarbúðir með ÍRB og þar á eftir fór hann í sitt fyrsta landsliðsverkefni í desember þegar hann fór á Norðurlandameistaramót unglinga (NMU) í Finnlandi. Ári seinna fór hann aftur á NMU og þá í Færeyjum þar sem hann vann silfurverðlaun. Í febrúar 2014 fékk Kristófer smjörþefinn af því hvernig er að synda á fyrsta flokks móti með sterkum sundmönnum þegar hann fór til Luxemborgar á Euro Meet með ÍRB. Þar sá hann heimsmeistara eins og Paul Biederman og Katinka Housszu gera sitt besta. Sumarið 2014 fóru svo sundmenn ÍRB aftur til Calella í æfingarbúðir og núna í desember kom Kristófer heim frá Doha í Qatar þar sem hann var á einu besta móti í stuttri laug í heiminum eins og áður hefur komið fram. Kristófer fer síðan til Luxemborgar í janúar 2015 með ÍRB liðinu og keppir aftur á Euro Meet. Hann stefnir svo á að ná í verkefni í sumar á alþjóðlegum vettvangi. En hvað æfir sundmaður mikið sem er í heimsklassa? Kristófer hefur alltaf verið nokkuð skuldbundinn sundmaður en síðustu 8 mánuðir hafa verið hans bestu. Frá því að þetta sundár 2014/2015 hófst hefur Kristófer náð að meðaltali 17,5 klukkutímum í lauginni og 5,5 af mjög öflugu þreki (ÍRB gult). Þetta síðasta er mikilvægt því þetta var ekki alltaf svona hjá honum. Sundárið 2013/2014 náði Kristófer að meðaltali 15,5 klukkutímum í lauginni og 4,5 í þreki (ÍRB svart). Sundárið 2012/2013 náði Kristófer að meðaltali 16,5 klukkutímum í lauginni og 4 í þreki (ÍRB blátt). Sundárið 2011/2012 náði Kristófer að meðaltali 16 klukkutímum í lauginni og 3 í þreki (ÍRB blátt). Sundárið 2010/2011 náði Kristófer að meðaltali 14,5 klukkutímum í lauginni og 2,5 í þreki (ÍRB svart*). *Litirnir vísa til mætingakerfis ÍRB sem hjálpa sundmönnum að ná þeim markmiðum sem sett eru til að ná árangri miðað við alþjóðleg viðmið. Gult er mjög góð mæting, blá er viðunandi og svart er of lágt. Mætingarviðmið miðast við aldur sundmanns og eykst með hverju ári þangað til sundmaður nær 18 ára aldri. Það ætti ekki að koma á óvart að árangur Kristófers hefur verið bestur þegar hann hefur mætt sem best og verið jákvæðastur í lauginni. Skuldbinding er ekki bara að mæta. Skuldbinding þýðir að vinna í tækninni á öllum æfingum, ná persónulegum markmiðum, vinna vel í þrekinu og huga vel að andlega þættinum. Að mæta er ekki nóg. Besta vinna Kristófers hefur verið síðustu 8 mánuði. Hann mætir á æfingar með jákvætt, yfirvegað en einbeitt hugarfar. Hann hefur sett niður markmið fyrir æfingar sem hann vinnur að. Hann gefur alltaf 100% á öllum æfingum og líka í þrekinu og nær viðmiðum sínum í tíma á æfingum í 9 skipti af hverjum 10. Þessi vinna og hugarfar hefur orðið til þess að hann hefur séð mestu bætingar á sínum sundferli sem er er mjög óvanalegt kominn á þennan aldur. Hefur leiðin alltaf verið auðveld? Eins og hjá öllum sundmönnum sem ná árangri hefur leiðin verið löng og ströng. Þegar við skoðum þróun 400 m skriðsunds hjá Kristófer sem er hans aðal grein sjáum við að þrátt fyrir stöðuga framþróun yfir árin hafa verið lægðir á leiðinni. Kristófer er núna aðeins 11 sekúndum frá heimsmetinu. Heimsmetið er 3:40,07 en tíminn hans er 3:51,23. Kristófer synti ekki 400 m skriðsund fyrr en hann var 11 ára gamall. Núna synda sundmenn niður í 8 ára þessa grein reglulega. Tíminn hans þá 5:59,94 var ekkert sérstaklega góður tími þar sem núverandi met í félaginu okkar í þessari grein í 10 ára flokki er 5:51,79. Í sannleika sagt þá hataði Kristófer 400m skriðsund þangað til fyrir tveimur árum síðan og að hata er vægt til orða tekið. Allt þetta leiðir þetta að nokkrum lykilþáttum sem koma öllum sundmönnum og foreldrum til góða. 1) Ekki berjast á móti því sem þú ert góð/ur í – æfðu þig, þú verður mun hamingjusamari. 2) Það sem þú ert góður í breytist með tímanum – sættu þig við það, þú verður afslappaðri við það. 3) Allir sundmenn lenda á vegg einhvern tímann á sundferli sínum – það er hluti af lærdómsferlinu. 4) Allar bætingar, sama hve litlar þær eru, verðskulda athygli – þú hefur aldrei gert hlutina betur en þetta áður. 5) Árangur og bætingar hjá eldri sundmönnum koma aðeins hjá þeim sem láta hlutina gerast – jákvætt hugarfar, mikil vinna og mikil skuldbinding borgar sig á endanum. Hvað ber framtíðin í skauti sér? Eins og við höfum nýlega lesið um í grein eftir Erlu Sigurjónsdóttur hefur hún fengið tilboð um styrk til að stunda nám við bandarískan háskóla vegna sundferils síns. Kristófer er einnig að vinna að því að fá styrk til að stunda nám og margir skólar eru áhugasamir um að fá þennan efnilega sundmenn í sínar raðir. Við óskum honum velfarnaðar á komandi vikum þegar hann útskrifast úr FS og á komandi mánuðum þar sem hann tekur ákvörðun um framtíð sína. Framtíðin er björt hjá þessum efnilega unga manni. Greinin er unnin af Anthony D. Kattan yfirþjálfara ÍRB í samvinnu við Kristófer