Leiðin í Smárann: Njarðvík-Hamar/Þór Þ. í dag kl. 17:15Prenta

Körfubolti

Ljónynjurnar okkar í Njarðvík mæta Hamar/Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum VÍS-bikarsins í Smáranum í Kópavogi kl. 17:15 í dag. Sigurvegari leiksins heldur áfram inn í úrslitaleikinn sem leikinn verður á laugardag í Smáranum.

Leiðin í Smárann var enginn göngutúr í garðinum eins og maðurinn sagði. Njarðvík kom inn í 16 liða úrslitin og upp úr bikarskálinni frægu kom nafn nágranna okkar og ríkjandi biakarmeistara frá Keflavík.

Njarðvík og Keflavík mættust í 16 – liða úrslitum í IceMar-Höllinni í desember, lokatölur 76-75 þar sem Dinkins átti 30 stiga leik. Dinkins sökkti tveimur vítum þegar fimm sekúndur lifði leiks og stal svo boltanum í lokasókn Keflavíkur og Ljónynjur fögnuðu sigri.

Í næstu umferð eða 8-liða úrslitum ákvað bikarkskálin að leggja fyrir okkar konur aðra áskorun og kom nafn Tindastóls upp úr skálinni góðu. Fyrir þennan bikardrátt hafði Tindastóll unnið báða deildarleikina gegn okkar konum. Fyrri leikinn 76-77 í IceMar-Höllinni og seinni leikinn 76-69 í Síkinu á Sauðárkróki.

Að þessu sinni fengu nýliðarnir skammt af sínu eigin meðali og Njarðvík vann 80-73 og tryggði sig inn í undanúrslit. Í þessum leik var Dinkins staðráðin í að tapa ekki þriðja sinni fyrir Stólunum og splæsti í þrennu með 23 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar.

Og hingað erum við komin, í undanúrslit sem fram fara í dag kl. 17.15 í Smáranum þegar við mætum Hamar/Þór Þorlákshöfn. Njarðvíkingar þið mætið grænir – miðasalan fer fram á Stubbur app!

Áfram Njarðvík