Léku sinn fyrsta úrvalsdeildarleik: Feðgin að skrifa söguna?Prenta

Körfubolti

Nýverið voru tveir efnilegir leikmenn sem léku sinn fyrsta úrvalsdeildarleik með kvennaliði Njarðvíkur en það voru þær Hulda María Agnarsdóttir og Sara Björk Logadóttir. Báðar komu þær við sögu í sínum fyrsta leik þegar Njarðvík vann góðan sigur á Haukum í Subwaydeild kvenna.

Hulda og Sara eru leikmenn í 9. flokki Njarðvíkur og hafa m.a. verið valdar í U15 ára landslið Íslands í sumar sem leikur æfingaleiki gegn Finnum í ágústmánuði ásamt því að dvelja ytra við æfingar með U15 ára landsliðinu.

Þess má geta að Sara Björk er dóttir Loga Gunnarssonar leikmanns karlaliðs Njarðvíkur sem þýðir að nú eru feðgin að leika fyrir sama félag á sama tíma í báðum úrvalsdeildum körfuboltans.

Eftir því sem sagnfræðingar góðir tengdir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur komast næst er ekki vitað til þess að það hafi gerst áður. Hafi einhverjir upplýsingar um annað þá er hægt að senda okkur skilaboð um slíkt á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur en að öðrum kosti höldum við því fram að hér sé ný blaðsíða á ferðinni í sögubókum körfuboltans.

Því má líka bæta við að Hulda María Agnarsdóttir er dóttir Svövu Stefánsdóttur sem varð margfaldur meistari með Keflavík, lék einnig með Njarðvík og A-landsliði kvenna en ekki tókst þeim þó að vera á sama tíma í úrvalsdeild þó Svava hafi vissulega átt langan og farsælan feril.

Mynd/ JBÓ: Sara t.v. og Hulda t.h. með sína fyrstu leikskýrslu frá úrvalsdeild kvenna.