Ljónin hefja leik í kvöld: Njarðvík-ÁlftanesPrenta

Körfubolti

Njarðvík og Álftanes mætast í sínum fyrsta leik í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla í kvöld. Leikurinn fer fram í IceMar Höllinni og hefst kl. 19.00. Það verður mikið við að vera enda FanZone frá 17.30 með leiktækjum og hamborgurum svo það mætir enginn svangur á völlinn, nema kannski hungraðir í sigur!

Njarðvík á heimavallarréttinn en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í undanúrslit. Liðin mættust tvívegis í deildinni eins og lög gera ráð fyrir, fyrri leikinn vann Njarðvík 89-80 sem var jafnframt fyrsti leikur okkar manna í nýja húsinu okkar. Á nýja árinu mættust liðin svo aftur og þá úti á Álftanesi í Kaldalónshöllinni þar sem ljónahjörðin nældi í tvö góð stig með 75-81 sigri. Báðir leikir liðanna í deild voru hörku spennandi svo það er ráð að mála stúkuna græna í kvöld og mæta með söngröddina.

Álftanes er að taka þátt í úrslitakeppninni í annað sinn og mættu Keflavik í 8-liða úrslitum í fyrra þar sem Keflavik vann 3-1. Njarðvík og Álftanes eru því að mætast í úrslitakeppni úrvalsdeildar í fyrsta sinn í sögunni.

Miðasala fer fram á Stubbur app og við hlökkum til að taka á móti ykkur á besta skemmtistað bæjarins.

Áfram Njarðvík