Ljónin í góðu yfirlæti að FlúðumPrenta

Körfubolti

Meistaraflokkur karla hélt í æfingaferð að Flúðum í Hrunamannahreppi um helgina. Hópurinn taldi 14 leikmenn, 3 þjálfara og Rabba nuddara og var hópurinn kominn á Flúðir um 18:00 á föstudeginum en það þurfti að fara hægt yfir á leið inn í bæinn þar sem heimamenn voru með fjárréttir um helgina.

Þar sem strákarnir léku leik gegn Þór Þ á fimmtudag var föstudagsæfingin í léttari kantinum, og eftir æfingu fór hópurinn saman í pizzaveislu í golfskálanum og þaðan í rólegheit á gistiheimilinu Grund en hópurinn gisti þar um helgina.

Á laugardagsmorgun var æfing númer tvö frá 11 til 13 og svo voru menn í rólegheitum eftir hádegismat og einhverjir voru í meðferð hjá Rabba á nuddbekknum. Síðari æfing var svo 16:30 til 18 og þaðan fór hópurinn svo í lambalæri og meðlæti hjá þeim á gistiheimilinu.

Á laugardagskvöld gripu drengirnir svo í spil og var mikið fjör og hópurinn hélt svo heim á sunnudagsmorgun eftir morgunmat þar sem ekki viðraði til þess að spila golf eins og áætlun stóð til um og í staðinn voru menn komnir snemma heim og náðu að sjá úrslitaleik HM í körfu.

Fín helgi að baki og framundan er kröftug vika þar sem strákarnir taka þátt í Icelandic Glacial mótinu í Þorlákshöfn. Þar spilar liðið þrjá leiki, gegn Grindavík, Fjölni og heimamönnum í Þór.

Strákarnir vilja koma á framfæri þökkum til Hrunamanna, og þá sérstaklega Árna Þór Hilmarssyni sem hafði veg og vanda að skipulagi með þjálfurum. Einnig til eigenda á gistiheimilinu Grund sem tók vel á móti liðinu þessa helgi.