Ljónynjurnar rifu Hamar í sigPrenta

Körfubolti

Njarðvík tók á móti Hamri í 1. deild kvenna í Njarðtaksgryfjunni í dag. Heimakonur tóku strax öll völd á vellinum og unnu öruggan sigur á gestum sínum. Lokatölur 92-35 Njarðvík í vil.

Ljónynjurnar mættu til leiks án Helenu Rafnsdóttur sem sat heima vegna veikinda. Þrátt fyrir fjarveru Helenu og öflugrar varnartilburða hennar þá leiddu Ljónynjur 20-7 að loknum fyrsta leikhluta.

Njarðvík opnaði annan leikhluta með 9-0 skvettu og gestunum gekk lítið að finna glufu á varnarleik Njarðvíkinga. Heimakonur gerðu út um leikinn strax í öðrum leikhluta og leiddu 44-15 í hálfleik. Átta leikmenn komust á blað hjá Njarðvík í fyrri hálfleik þar sem Erna Freydís var atkvæðamest með 11 stig en Sigurveig Sara kom öflug af Njarðvíkurbekknum með 5 stig og 8 fráköst og þar af 6 sóknarfráköst í leikhléi. Hjá Hamri var Gígja Marín stigahæst í hálfleik með 6 stig.

Áður en þriðji leikhluti var hálfnaður var munurinn orðinn 40 stig, 57-17 og Hvergerðingar algerlega heillum horfnir gegn einbeittum Njarðvíkurkonum. Í lok þriðja hluta var staðan 69-29 og lokatölur reyndust 92-35 í auðveldum sigri Njarðvíkinga.

Stigahæst í liði Njarðvíkinga í dag var Erna Freydíst Traustadóttir með 21 stig og Júlía Scheving Steindórsdóttir bætti við 19 stigum og 7 fráköstum. Sigurveig Sara Guðmundsdóttir var svo með 5 stig og 10 fráköst. Hjá Hamri var Gígja Marín stigahæst með 8 stig og 6 fráköst.

Næsti leikur Njarðvíkinga er þann 29. febrúar næstkomandi en þá er um að ræða stórleik gegn ÍR í Hertz-hellinum en þessi lið berjast nú við Keflavík b um 2. sætið í deildinni því Fjölniskonur virðast vera að stinga af. Hamar á ekki síðri leik þennan daginn en þá kemur Grindavík b í Blómabæinn í sannkallaðan botnslag.

Tölfræði leiksins

Mynd/ Jón Björn