Fyrirliði okkar Njarðvíkinga Logi Gunnarsson verður áfram í herbúðum liðsins næstu tvö árin. Samningur var innsiglaður Í Ljónagryfjunni í dag þar sem Logi hóf körfuboltaferil sinn í meistaraflokki fyrir 25 árum. Líklegt verður að teljast að Logi loki hringnum í grænu treyjunni þegar þessum samningi líkur en bakvörðurinn verður 41 árs núna í september.
„Það er eitthvað sem ég hafði alltaf séð fyrir mér að gera, klára ferilinn á mínum heimaslóðum. Það gerir það enn skemmtilegra að vera í góðu liði sem ætlar sér að berjast um alla titla. Það er svo ákveðin rómantík að fá að fylgja Ljónagryfjunni þennan síðasta spöl sem er framundan,“ sagði Logi í samtali við heimsíðu félagsins. Logi lék um 22 mínútur í leik á síðasta tímabili þar sem hann skilaði 9.4 stigum í leik.