Logi heiðursgestur á BolungarvíkPrenta

Körfubolti

Logi Gunnarsson fyrirliði karlaliðs Njarðvíkur var heiðursgestur á Bolungarvík síðastliðna helgi þegar nýr og glæsilegur útikörfuboltavöllur var tekinn í notkun. Á Facebook-síðunni Heilsubærinn Bolungarvík kemur eftirfarandi fram:

Körfuboltavöllurinn var afhentur Bolungarvíkurkaupstað í dag. Logi Gunnarsson körfuboltahetja og landsliðsmaður til margra ára kom og heiðraði okkur með nærveru sinni ásamt liðsmönnum Vestra sem sýndu listir sínar á vellinum.

Grillaðar voru pylsur og runnu svalarnir ljúflega niður með. Veðrið sýndi á sér sínar bestu hliðar og lék við okkur. Stjórn Heilsubæjarins vill þakka öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum og sjálfboðaliðum sem lögðu verkefninu lið, kærlega fyrir aðstoðina við að koma vellinum á laggirnar. Án styrkra og samhentra handa samfélagsins yrði svona verkefni aldrei að veruleika – Takk fyrir!

Af þessu tilefni voru vellinum færðir körfuboltar af Körfuboltadeild Vestra í samstarfi við Nettó. Boltarnir munu verða geymdir í afgreiðslu mustersins og hægt verður að fá lánaðan bolta til að nota á vellinum.Við vonum að sem flestir njóti vallarins um ókomna tíð.

Mynd/ Heilsubærinn Bolungarvík