Lokaspretturinn: Allir upp á dekk!Prenta

Körfubolti

Nú er lokaspretturinn í deildarkeppninni framundan hjá karla- og kvennaliði Njarðvíkur. Línur eru teknar að skýrast ansi vel í 1. deild kvenna hjá Ljónynjum en í Domino´s-deild karla eru enn umtalsverðir möguleikar í boði varðandi lokaröðun deildarkeppninnar og hvernig úrslitakeppnin muni þar af leiðandi líta út.

Aðeins einn heimaleikur er erftir í deildarkeppninni hjá báðum Njarðvíkurliðunum og við viljum troðfylla Njarðtaksgryfjuna á þessum leikjum. Á morgun leika okkar menn í Ólafssal í Hafnarfirði gegn Haukum og svo heima 12. mars gegn Fjölni og þá látum við okkur ekki vanta, að sama skapi verður grannaglíma síðasti heimaleikur kvennaliðsins þegar Keflavík b mætir í heimsókn 15. mars.

(Við minnum svo á Skemmtikvöldið 13. mars í Offanum og Páskabingóið 3. apríl í Ljónagryfjunni)

Hér að neðan skoðum við þá leiki sem liðin okkar eiga eftir í deildinni og reifum lauslega þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir úrslitakeppnina. Allir upp á dekk!


Domino´s-deild karla

Haukar – Njarðvík: 5. mars
Njarðvík – Fjölnir 12. mars
Þór Þorlákshöfn – Njarðvík 19. mars

Þó nokkrar senur eru í boði í Domino´s-deild karla þar sem öll lið eiga nú möguleika á sex stigum. Aðeins Stjarnan og Keflavík eru inni í myndinni um deildarmeistaratitilinn og Stjarnan þar í svokölluðu dauðafæri. Næstu fimm lið eru í hnapp og þar getur ýmislegt breyst á næstunni, Tindastóll og KR eru í 3.-4. sæti með 24 stig, Njarðvík og Haukar eru í 5.-6 sæti með 22 stig og ÍR í 7. sæti með 20 stig. Fyrir okkur er ljóst að sökum innbyrðisstöðu náum við Keflavík ekki að stigum, Njarðvík getur endað hæst í 3. sæti en sá raunveruleiki er háður úrslitum annarra leikja eins og gefur að skilja. Með betri innbyrðisstöðu gegn Grindavík er ljóst að Njarðvík getur ekki hafnað í 8. sæti úr þessu nema lenda í tiltölulega ólíklegum þriggja liða útreikningi – svæðið sem við erum því að berjast á er 3.-7. sæti. Ómögulegt er að segja til um þessar mundir hvernig muni nákvæmlega raðast inn í úrslitakeppnina en eitt er þegar orðið víst og það er að Fjölnir er fallið í 1. deild. Hér að neðan skoðum við stöðuna hjá kvennaliðinu okkar en þar eru línur talsvert skýrari en í Domino´s-deild karla.


Fyrsta deild kvenna

Fjölnir – Njarðvík: 7. mars
Njarðvík – Keflavík b: 15. mars
Grindavík b – Njarðvík: 24. mars

Hvað er í boði fyrir kvennalið Njarðvíkur þessar þrjár síðustu umferðir? Það sem við vitum er að samkvæmt reglum 1. deildar kvenna þá mun Keflavík b falla út úr myndinni þegar kemur að úrslitakeppninni, b-lið taka ekki þátt í úrslitakeppni deildarinnar og eiga því ekki möguleika á því að fara upp í úrvalsdeild. Nú þegar hefur Njarðvík tryggt að Tindastóll nái þeim ekki að stigum, Stólarnir eiga möguleika á 6 stigum en 10 stig eru á milli Njarðvíkur og Tindastóls. Þar sem Keflavík b verður ekki í úrslitakeppninni þá er ljóst að Fjölnir, ÍR, Njarðvík og Tindastóll munu skipa úrslitakeppnina, Grindavík b fær ekki þátttökurétt í henni af sömu ástæðum og Keflavík b og Hamar situr á botninum með 4 stig.

Þegar við skoðum stöðu þeirra fjögurra liða sem verða í úrslitakeppninni er Fjölnir á toppnum með 32 stig, ÍR í 2. sæti með 28 stig og Njarðvík í 3.-4. sæti með 26 stig eins og Keflavík b en liðin eiga eftir að mætast í næstsíðustu umferð. Fjölnir á möguleika á 8 stigum og þykja langlíklegastar um þessar mundir til þess að verða deildarmeistarar. Ef það gengur eftir mætast Fjölnir og Tindastóll í fyrstu umferð þar sem Fjölnir verður með heimaleikjaréttinn. Hin viðureignin væri þá slagur ÍR og Njarðvíkur sem hafa lokið sínum fjórum leikjum á tímabilinu þar sem ÍR hafði betur 3-1. Til þess að Njarðvík nái heimaleikjaréttinum af ÍR er ljóst að Njarðvík þarf að klára deildarkeppnina með fleiri stig en ÍR sem á leiki eftir gegn botnliði Hamars, Tindastól og Fjölni. Samkvæmt drögum KKÍ hefst úrslitakeppni 1. deildar kvenna tæpri viku eftir að deildarkeppninni lýkur eða þann 30. mars. Við Njarðvíkingar ætlum auðvitað að fjölmenna á alla heimaleiki okkar kvenna og líka láta vel í okkur heyra á útivelli.