Í síðustu viku fór fram hin árlega páskaeggjaleit Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og Nóa Siríus. Reyndar hefur hún ekkert verið árleg undanfarið sökum heimsfaraldurs en mikið var það nú gaman að geta boðið okkar yngstu meðlimum körfuboltafjölskyldunnar loksins í páskaeggjaleit á nýjan leik.
Páskaeggjaleitin fór sem fyrr fram í skrúðgarðinum í Njarðvík þar sem ungir „leitarar” fengu það verkefni að finna páskamiða og skila þeim inn og fá fyrir vikið páskaegg frá Nóa Siríus. Það voru svo góðvinir okkar Gunni og Arna í Kosti sem gáfu mjólk og súkkulaði í leitina svo allir sem mættu í skrúðgarðinn gátu gætt sér á heitu súkkulaði og átt skemmtilega stund saman.
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur vill koma á framfæri innilegu þakklæti til Nói Siríus og Kosts en báðir þessir aðilar hafa stutt við páskaeggjaleitina af miklum myndarbrag síðustu ár.
Páskaeggjaleit KKD UMFN er endurgjaldslaus skemmtun fyrir okkar „yngstu leikmenn” en þessi miðvikudagur hafði upp á eitthvað að bjóða fyrir alla. Eftir fjörið í skrúðgarðinum var haldið körfuboltabingó sem unglingaráð KKD UMFN stóð fyrir og þaðan fóru allir bingóspilarar beint á leik Njarðvíkur og Fjölnis þar sem slegin var skjaldborg utan um völlinn á meðan kvennaliðið okkar hitaði upp fyrir leik. Sigur vannst og Njarðvík komið í úrslit… toppdagur!