Már Gunnarsson með sex íslandsmet á Haustmóti Ármanns og góður árangur hjá liði ÍRBPrenta

Sund

Sundfólk ÍRB kemur vel afar vel undan sumri, en fyrsta mót vetrarins fór fram um helgina, haustmót Ármanns. Margir góðir tímar og góðar bætingar litu dagsins ljós ásamt því að fjölmörg verðlaun unnust af okkar fólki. Hæst bar þó árangurinn hjá sundkappanum Má Gunnarssyni í ÍRB, en hann fór á kostum og setti sex íslandsmet í flokki S12 (blindir og sjónskertir) í fimm mismunandi greinum. Öll þessi met voru komin vel til ára sinna eða frá árunum 1994-1996 og voru öll í eigu sundkappans Birkis Rúnars Gunnarssonar. Þær greinar sem Már setti met í voru, 50m flugsund sem hann tvíbætti, 50m baksund, 100m fjórsund, 200m fjórsund og 100m baksund. Glæsilegur árangur hjá Má sem ætlar sér greinilega að ná langt. Strax um næstu helgi, nk. föstudag og laugardag, þá fer fram eitt af meistaramótum SSÍ en þá verður keppt í Bikarkeppnin SSÍ í Vatnaveröldinni. Þar ætla bæði kvenna- og karlalið ÍRB sér stóra hluti og viljum við hvetja alla suðurnesjamenn til að mæta og hvetja lið ÍRB til sigurs.