Mario: Líður eins og heima hjá mér að mörgu leytiPrenta

Körfubolti

Flestir ef ekki allir leikmenn upplifðu umtalsverð vonbrigði þegar körfuboltavertíðin var flautuð af. Okkar maður Mario Matasovic sem hefur nú klárað tvö tímabil í grænu segir að það hafi ekki átt að koma neinum á óvart að körfuboltavertíðin yrði blásin af. Mario sem starfar einnig hjá Njarðvíkurskóla sagði við UMFN.IS að hér líði honum að mörgu leyti eins og heima hjá sér.

Þitt annað tímabil á Íslandi nú á enda, hvernig leist þér á stöðuna á Njarðvíkurliðinu núna í aðdraganda úrslitakeppninnar?
Samanborið við síðasta ár þá höfum við vafalítið farið um erfiðari veg þetta tímabilið, þá sérstaklega í upphafi leiktíðar. Ég tel samt að liðið hafi verið komið á rétt spor fyrir úrslitakeppnina. Við vorum loksins með alla heila og hlutirnir að smella á réttum tíma og allir klárir í að kvitta fyrir vonbrigðin í lok síðasta tímabils.

Hver er þín skoðun á endalokum körfuboltavertíðarinnar eins og hún var kynnt á Íslandi?
Ég tel að ákvörðun KKÍ hafi ekki komið neinum sem fylgist grannt með körfubolta á óvart. Það sjá allir hvað er í gangi í íþróttum um heim allan og deildum um alla Evrópu er verið að slá á frest eða aflýsa. Sem leikmaður þá hefði maður viljað klára tímabilið með einhverjum hætti til að fá niðurstöðu í leiktíðina en það er margt sem skoða þarf (styrktaraðilar, fjárhagur) svo það mátti búast við þessari niðurstöðu, því miður.

Við þessar aðstæður, hvaða augum lítur þú til framtíðar varðandi þinn feril?
Það er eflaust mikil óvissa hjá mörgum leikmönnum núna í sambandi við hvernig þetta fari nú alltsaman. Að því sögðu þá hef ég átt tvö frábær ár í Njarðvík og ég get sannanlega sagt að mér líði eins og heima hjá mér að mörgu leyti. Vonandi eftir að hlutirnir róast örlítið verður hægt að setjast niður og ræða saman um framtíðina.