Njarðvík tyllti sér á ný í toppsæti Subwaydeildarinnar á föstudag eftir öruggan 96-70 sigur á Val. Eftir þrjá leikhluta af klafsi og þéttum vörnum brustu flóðgáttirnar og okkar menn settu 33 stig á gestina í lokaleikhlutanum. Fotios Lampropoulos var stigahæstur með snyrtilega 20-13 tvennu en sex leikmenn gerðu 8 stig eða meira í leiknum.
Eins og sakir standa eru Njarðvík, Tindastóll og Keflavík einu ósigruðu lið deildarinnar eftir þrjár umferðir. Framundan er útivallarsprettur sem hefst með grannaglímu gegn Grindavík á mánudag og þann 5. nóvember gegn KR í DHL-Höllinni. Að því loknu eiga okkar menn þrjá heimaleiki í röð gegn Tindastól, Breiðablik og Vestra.
Eins og flestum er kunnugt var leikurinn í beinni útsendingu á Stöð2Sport en það er víst ekki eini staðurinn þar sem leikurinn var í beinni því honum voru líka gerð skil á twitch.com af aðila sem kallar sig „Outconsumer.” Einhverjir gætu hafa tekið eftir því að okkar maður Nicolas Richotti á sér marga fylgjendur eftir feril sinn á Spáni en „Outconsumer“ er einmitt Twitch-stjarna þar í landi. Útsendingin var í góðu samstarfi við Stöð2Sport og að leik loknum mætti Nico í viðtal við Outconsumer og félaga. En þeir félagar voru ekki sáttir við að Njarðvík hefði ekki náð að rjúfa 100 stiga hamborgaramúrinn eins og sjá má á Twitter
Vinur okkar @Outconsumer var ekki sáttur með @UMFNOfficial að brjóta ekki 100 stiga múrinn!
— Subway Körfuboltakvöld (@korfuboltakvold) October 22, 2021
—————————————-
Nuestro amigo @Outconsumer no estaba contento de que njarðvík no lograra 100 puntos. @oscarcuesta76 @nico_rchtt #subwaydeildin #körfubolti pic.twitter.com/I0ZJ4CnGW2
Næsti deildarleikur er mánudaginn 25. október gegn Grindavík á útivelli.
Smassað í þrista
Í leik föstudagsins setti Njarðvík met á tímabilinu með því að smella niður 18 þristum í leiknum en það voru ekki bara leikmennirnir okkar sem voru skotvissir eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan því skotvissir stuðningsmenn náðu í tvígang að berja niður SMASS-skotið og hlutu fyrir vikið glæsilega hamborgaraveislu frá SMASS á Fitjum í Reykjanesbæ.