Njarðvíkingar munu leika í Njarðtaks-gryfjunni næstu tvö tímabil en körfuknattleiksdeild Njarðvíkur og Njarðtak/Íslenska gámafélagið undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning.
Í fyrsta sinn í sögu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur mun heimavöllur Njarðvíkurljónanna bera nafn samstarfsaðila deildarinnar og er það afar viðeigandi að Njarðtak hafi tryggt sér nafnið. Ólafur Thordersen eigandi Njarðtaks og aðstoðarforstjóri Íslenska gámafélagsins sagði við tilefnið að nafni sinn og faðir hefði verið formaður bygginganefndar Ljónagryfjunnar og því við hæfi að Njarðtak myndi undirstrika samstarf sitt við Njarðvíkurljónin með þessum hætti.
„Uppbygginarstarfið í Njarðvík hefur vakið verðskuldaða eftirtekt síðustu tímabil og vilja Njarðtak og Íslenska gámafélagið liðsinna deildinni við enn frekari uppbyggingu og taka þannig þátt í að koma Reykjanesbæ aftur í fremstu röð í íþróttum,“ sagði Ólafur Thordersen.
Jón Björn Ólafsson stjórnarmaður hjá körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sagði að um nokkur kaflaskil væri að ræða hjá Njarðvíkingum. „Í fyrsta sinn ber heimavöllur okkar Njarðvíkinga nafn samstarfsaðila eins og þekkist víðast hvar annars staðar í boltagreinum hérlendis. Njarðtaks-gryfjan mun áfram innihalda Njarðvíkur-ljónin og í ljónagryfju heimilum við ekki auðsótt stig á okkur. Það er virkilega gaman að fá Njarðtak inn með þessum hætti enda er markmiðið hér á bæ aðeins eitt, að berjast um alla titla sem í boði eru. Við teflum fram sterku liði í vetur í Domino´s-deild karla og mjög efnilegu liði í 1. deild kvenna svo það verður engin longmolla í Njarðtaks-gryfjunni næstu tímabil.“
Ólafur Thordersen hefur starfrækt Njarðtak um árabil og á meðan keppnishúsið mun bera nafn Njarðtaks munu merkingar vallarins tengjast Íslenska gámafélaginu.
Mynd: Frá vinstri efri röð: Vala Rún Vilhjálmsdóttir gjaldkeri KKD UMFN, Júlía Scheving Steindórsdóttir fyrirliði kvennaliðs Njarðvíkur, Logi Gunnarsson fyrirliði karlaliðs Njarðvíkur og Haukur Aðalsteinsson rekstrarstjóri ÍGF á Suðurnesjum. Neðri röð frá vinstri: Jón Björn Ólafsson ritari stjórnar KKD UMFN og Ólafur Thordersen aðstoðarforstjóri Íslenska gámafélagsins og eigandi Njarðtaks.