Ljónynjurnar hafa tekið 1-0 forystu gegn Ármanni í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Liðin mættust í Njarðtaksgryfunni í kvöld þar sem lokatölur voru 67-42 okkar konum í vil!
Kamilla Sól Viktorsdóttir var stigahæst í kvöld með 18 stig og 2 fráköst en Njarðvíkurliðið fór vel af stað, slakaði svo helst til mikið á klónni en liðið lokaði leiknum vel og í fjórða héldu okkar konur á öllum spilunum og tóku örugga 1-0 forystu.
Lára Ösp var ekki með í kvöld sökum meiðsla en við vonumst til að sjá hana í búning sem allra fyrst. Þuríður Birna meiddist í leiknum og varð frá að hverfa eftir högg á kviðinn. Þura fer í nánari skoðun og við sendum henni baráttukveðjur.
Annar leikurinn í seríunni er á laugardag í Kennó og við vildum gjarnan sjá sem flesta Njarðvíkinga mæta í Kennó og styðja okkar konur til sigurs.
Hér má nálgast myndasafn úr leik kvöldsins
Hér er viðtal við Kamillu Sól eftir leikinn
Mynd/ Jón Björn – Chelsea Jennings sækir að körfu Ármenninga í kvöld.